Uppbygging félagsmiðstöðva í hverfum Reykjanesbæjar
Vorið 2021, þegar ég var á mínu fyrsta ári sem skólastjóri Háaleitisskóla á Ásbrú, varð mér ljóst að félagsmiðstöðvarstarfið í Reykjanesbæ þyrfti að einhverju leyti endurskoðunar við. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar fyrirtækisins Rannsóknar og Greiningar haustið 2020 kom m.a. í ljós að þátttaka barna og ungmenna í Ásbrúarhverfi í starfi Fjörheima, sem er miðlæg félagsmiðstöð í bænum, var töluvert minni en þátttaka barna og ungmenna úr öðrum hverfum bæjarins.
Nauðsynlegt var að grípa til tafarlausra aðgerða
Það var ljóst að við það yrði ekki unað. Það yrði að virkja börnin í Ásbrúarhverfi til þátttöku í skipulögðu félagsmiðstöðvarstarfi og með því rjúfa einangrun, efla félagsfærni og bæta líðan þeirra. Sem svar við þessu stofnaði ég, sem skólastjóri Háaleitisskóla, félagsmiðstöðina Brúnna í samvinnu við Fjörheima. Við fengum fjármagn til að kaupa inn búnað og tæki til að hefja starfið og gefin voru fyrirheit um fjármagn til reksturs. Það gekk því miður ekki eftir. Í þeirri stöðu var ekki um annað að ræða en að ég forgangsraðaði í rekstri skólans og lagði fjármagn í þetta mikilvæga starf sem þoldi enga bið að hefja. Félagsmiðstöðin var sérsniðin til að mæta þörfum og áhugamálum barnanna í hverfinu okkar. Þetta frumkvæði mitt jók þátttöku barnanna í félagsmiðstöðvarstarfi strax mjög mikið, og sýndi og sannaði mikilvægi þess að hafa aðgang að slíkri þjónustu í göngufæri frá heimilum barnanna og í umhverfi þar sem þeim líður vel. Því staðreyndin var því miður sú að þau voru rög við að mæta þangað þar sem þeim leið ekki nógu vel og fannst þau ekki velkomin í þann hóp sem sótti Fjörheima mikið. Þeim fannst þau stimpluð sem krakkarnir úr Ásbrúarhverfi og því höfðu mörg þeirra ekki sjálfstraust til að taka virkan þátt í því öfluga starfi sem þar fer fram.
Áhersla núverandi meirihluta bæjarstjórnar
Ég fékk gullið tækifæri til að hafa áhrif á þróun og skipulag félagsmiðstöðvarstarfs í bæjarfélaginu er ég tók við formennsku í Íþrótta- og tómstundaráði Reykjanesbæjar sumarið 2022. Núverandi meirihluti hér í Reykjanesbæ hefur frá upphafi þessa kjörtímabils haft það að markmiði sínu að efla félagsmiðstöðvastarf úti í hverfum í bæjarfélaginu. Mér hefur þó fundist það ganga of hægt en við náðum þó þeim tímamótum með mótun fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 að tryggja starf og frekari uppbyggingu félagsmiðstöðvarinnar á Ásbrú. Í fjárhagsáætlun þessa árs er svo tryggt fjármagn til uppbyggingar nýrrar félagsmiðstöðvar í Stapaskóla, sem mun hefja starfsemi nú á árinu og þjóna börnum og ungmennum í Innri-Njarðvík. Af því er ég stoltur og er þess fullviss um að það starf sem þar mun fara fram mun reynast mikið heillaspor og efla til muna þátttöku barna í skipulögðu tómstundastarfi, bæta líðan þeirra og styrkja félagsleg tengsl ungmenna í hverfinu.
Félagsmiðstöðvar í hvert hverfi hefur margháttaða kosti í för með sér
Félagsmiðstöðvar í hverju hverfi bætir aðgengi og eykur án vafa aðsókn, því auðveldara er fyrir börn og ungmenni að nálgast þjónustuna. Það veitir líka ákveðna öryggistilfinningu foreldra að vita af börnum sínum í nánd við heimili þeirra. Félagsmiðstöðvar í hverfum auka einnig samfélagsþátttöku og tengslamyndun í nærumhverfi sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið í heild. Öflugt félagsmiðstöðvarstarf í hverfum bæjarins getur einnig aukið sveigjanleika og viðbragðsflýti ef þarfir barna og ungmenna í tilteknu hverfi krefjast þess að brugðist sé hratt við og markvissri fræðslu miðlað til ákveðinna hópa svo dæmi sé tekið. Dreifing félagsmiðstöðva tryggir að öll börn og unglingar, óháð búsetu eða efnahag, hafi jöfn tækifæri til að nýta sér þjónustuna. Þetta dregur úr líkum á að sumir hópar verði undanskildir vegna fjarlægðar frá miðlægri félagsmiðstöð. Og síðast en ekki síst gegna félagsmiðstöðvar lykilhlutverki í því að skapa vettvang svo börnin hafi tækifæri til að efla félagsfærni sína sem stuðlar að jákvæðri samveru og eykur virkni meðal barna og unglinga.
Fleira mætti tína til sem kosti þess að reka einnig félagsmiðstöðvar í hverju hverfi bæjarins til viðbótar við öflugt miðlægt barna- og ungmennahús eins og Fjörheima.
Að nýta niðurstöður kannana til að styrkja samfélagið með sértækum aðgerðum
Í gegnum árin hafa kannanir til að meta líðan og lífstíl barnanna okkar verið lagðar fyrir nokkrum sinnum á ári. Hér í bæ hafa niðurstöður þessara kannana ekki verið grunnur að samvirkum aðgerðum til að bæta hag og líðan barnanna okkar með markvissum hætti. Ég hef undanfarin ár hvatt til slíkra aðgerða þvert á svið bæjarins en því miður hefur það ekki hlotið þann hljómgrunn sem nauðsynlegur er til að hægt sé að ráðast í öflugar aðgerðir sem styrkja samfélag okkar til framtíðar. Litið hefur verið á að þessar kannanir, sem framkvæmdar eru í skólum landsins, og þá vegna þess hve auðvelt er að ná til sem flestra barna til að svara slíkum könnunum, sem tæki einungis fyrir skóla til að efla sitt starf. Það er í sjálfu sér gott og blessað en þær aðgerðir sem þarf að fara í til að bæta hag og líðan barnanna okkar þurfa að vera byggðar á samstilltri vinnu þess fagfólks sem starfar hjá Reykjanesbæ að málefnum barna og ungmenna á þeim sviðum sem að þeim málum koma. Og þeirri grundvallarvinnu þarf að fylgja eftir með öflugri aðgerðaráætlun til að innleiða þær breytingar sem nauðsynlegar eru.
Við getum gert betur til að bæta hag og líðan barnanna okkar
Nýlegar niðurstöður kannana á líðan og hag barna og ungmenna í bæjarfélaginu okkar sýna svo ekki verður um villst að við stöndum frammi fyrir talsverðum áskorunum. Samfélagið þarf að taka saman höndum og vinna með markvissum hætti að því að mæta þeim. Þar höfum við sofið á verðinum sem gert hefur það að verkum að verkefnið sem fram undan er hefur aukist að umfangi. Það er þó ekki þannig að það sé ekki viðráðanlegt. Við eigum afar öflugt fagfólk á fagsviðum bæjarins sem án vafa er tilbúið í verkið en það er þeirra sem í forsvari eru á sviði stjórnmálanna, stefnumótunaraðila sem og forstöðufólks fagsviða bæjarins að leggja drög að og leiða þessa mikilvægu vinnu sem fram undan er. Þeim fjármunum sem varið verður í þetta mikilvæga verkefni er vel varið og mun til framtíðar litið leiða til mikils sparnaðar fyrir bæjarfélagið svo ekki sé minnst á aðalatriðið sem er bætt líðan og aukin velferð barnanna okkar. Þau eru framtíðin og það er skylda okkar sem samfélags að hlúa vel að þeim!
Friðþjófur Helgi Karlsson
Höfundur er fv. skólastjóri Háaleitisskóla og formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar.