Heimanám virkar
Gylfi Jón Gylfason skrifar.
Finnst þér fara of mikill tími í heimanám? Kanntu tíu mínútna regluna í heimanámi?
Reglan er afar einföld. Margfaldaðu bekkinn sem barnið þitt er í með 10 og þá ertu kominn með grófa viðmiðunartölu um hversu löngum tíma barnið þitt ætti að verja í heimanám. Barn í fyrsta bekk lærir þá að hámarki heima í 10-20 mínútur, í öðrum bekk í 20 mínútur og svo koll af kolli. Reglan gildir upp í sjötta bekk. Nemendur í 7.- 10. bekk ættu ekki að verja meiri tíma til heimanáms en 60-90 mínútur á dag að algeru hámarki. Ástæðan fyrir því er einföld. Margar rannsóknir benda til að of mikið heimanám geti valdið námsleiða og hafi truflandi áhrif á fjölskyldulífið og félagslíf barnsins. Notkun reglunnar er útbreidd um allan heim og er til dæmis ráðlögð af NEA (National Education Association) í Bandaríkjunum.
Hver er megintilgangur heimanáms?
Heimanám hefur margþættan tilgang; að skapa góðar námsvenjur, venja barnið á að vinna sjálfstætt og af ábyrgð og gefa foreldrum tækifæri á fylgjast með því sem barnið er að gera í skólanum. Megintilgangur heimanáms er hins vegar að þjálfa færni sem kennarinn hefur ekki tíma til að þjálfa með barninu á skólatíma. Þetta er sérstaklega áberandi þegar barnið er að tileinka sér lestur, lesskilning, grundvallaratriði í stærðfræði og ritun. Miðað við tímarammann hér að ofan þýðir það að kennarinn þarf að vanda vel til verka þegar hann skipuleggur heimanámið svo það verði ekki of langt.
Virkar heimanám?
Auðvitað virkar heimanám. Mannsheilinn er sem betur fer þannig gerður að hann virkar í öllum aðstæðum. Við getum lært alls staðar. Ekki bara í skóla eða á vinnustað. Hann virkar því augljóslega líka heima. Skárra væri það nú. Harris Cooper deildarforseti sálfræðideildar Duke háskólans og höfundur bókarinnar „The Battle Over Homework“ hefur ásamt félögum sínum farið yfir rannsóknir á heimanámi. Rannsóknir sem bera saman nemendur sem læra heima við þá sem gera það ekki en eru svipaðir að getu og öðru leyti sýna að heimanám skilar góðum árangri í öllum fögum óháð aldri. Aðferðafræðilega gallaðar rannsóknir sem bera saman nemendur með tilliti til heimanáms, en gæta ekki að því að nemendur eru mismunandi í grunninn, skila ekki eins afgerandi niðurstöðu. Eigi að síður benda um það bil 75% rannsókna af þessu tagi til þess að heimanám skili árangri. Margar rannsóknir benda til þess að þegar barninu er ofgert í heimanámi, líkt og í hryllingssögum sem heyrast af börnum sem sitja yfir námsbókum heima þannig að farið er að slaga í annan skóladag heima, geti það verið beinlínis skaðlegt og dregið úr áhuga barnsins.
Lokaorð
Heimanám virkar, sé það markvisst og ofgeri ekki barninu. Auðvitað eru til undantekningar frá meginreglunni; til eru börn sem hafa njóta þess að sitja yfir námsbókunum lengur en ráðlagt er og auðvitað eru einnig eru til börn sem ráða ekki við svo mikið heimanám sem hér er ráðlagt, en það eru frávik frá meginreglunni. Til eru leiðir til að auðvelda þér heimavinnuna með barninu og í næstu grein ætla ég að ræða þær.
Gylfi Jón Gylfason
Fræðslustjóri Reykjanesbæjar