Heimili fyrir fólk en ekki fjárfesta
Öll viljum við og þurfum að eiga húsaskjól, öruggt heimili. Athvarf þar sem okkur líður vel og við getum rekið án þess að þurfa neita okkur um aðrar grunnþarfir. Til að byggja upp öflugt almennt húsnæðiskerfi fyrir almenning á Íslandi er mikilvægt að taka tillit til ýmissa þátta sem stuðla að langtímalausnum og réttlæti á húsnæðismarkaði. Ríkið þarf að stórauka stuðning við framboð á húsnæði með stofnframlögum og uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis og það sem fyrst. Þar þarf að byggja hagkvæmt húsnæði án þess að fórna gæðum eða umhverfismarkmiðum. Þannig væri stuðningur aukinn við byggingu leigu- og búseturéttaríbúða sem eru á viðráðanlegu verði fyrir lág- og millitekjuhópa. Öruggt húsnæði eru nefnilega mannréttindi.
Þá er mikilvægt að setja takmörk á íbúðakaup til fjárfestinga með aukinni skattlagningu á annarri, þriðju o.s.frv. eign sem gjarnan eru keyptar af fjárfestum í gróðaskyni og koma böndum á Airbnb. Þá er ein leið að stuðla að nýsköpun í húsnæðisformum líkt og sameignar- eða búsetufélögum, sem leið til að draga úr byggingarkostnaði og stuðla að sjálfbærni. Tryggja þarf að húsnæðislausnir henti öllum hópum samfélagsins, þar á meðal eldri borgurum, fólki með fötlun og ungu fólki.
Fjárhagslegt öryggi kaupenda og leigjanda er mikilvægt. Þess vegna þurfa lánaskilmálar á almennu húsnæði að vera sanngjarnir og endurskoða þarf og bæta vaxtakjör á húsnæðislánum. Það þarf að auka opinberan stuðning með auknu fjármagni til verkefna sem miða að því að tryggja húsnæðisöryggi, eins og fjölgun hlutdeildarlána til að auðvelda fyrstu kaupendum að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Um leið þarf að styrkja leigumarkaðinn og setja reglur sem vernda leigjendur og leigusala, og stuðla að langtímaleigusamningum sem tryggja stöðugleika, auka stuðning við leigjendur um leið og koma þarf á leigubremsu. Einnig þarf að huga að endurnýjum eldri bygginga og styðja við endurbætur á eldra húsnæði til að bæta orkunýtingu og stuðla að minni sóun og um leið umhverfisvernd. Nota vistvæn byggingarefni og tækni til að draga úr kolefnisspori í byggingariðnaði.
Um leið þarf að fara í skýra og stöðuga stefnumótun þar sem ríki og sveitarfélög móta langtímaáætlanir sem tryggja stöðugleika á húsnæðismarkaði og taka mið af fólksfjölgun og þörfum samfélagsins. Með þessu stöndum við í VG og munum leggja okkur öll fram um að byggt verði húsnæði fyrir venjulegt fólk á sanngjörnu verði.
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,
kennari og oddviti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi.