Samkaup
Samkaup

Aðsent

Hverfið mitt – Innri-Njarðvík
Föstudagur 18. febrúar 2022 kl. 13:37

Hverfið mitt – Innri-Njarðvík

Það er góð tilfinning er logninu linnir og ferskur andvari berst frá sjávarsíðunni. Það eru hlunnindi að geta andað að sér fersku sjávarloftinu og við erum lánsöm að geta notið þess í jafn ríkum mæli og hér gefst.

Hverfið mitt er Innri-Njarðvík. Ég fæðist sex dögum fyrir jól í byrjun áttunnar síðustu aldar og eyði mínum fyrstu uppvaxtarárum hér. Það var gott fyrir litla hnátu að alast upp í þessu hverfi sem þá einungis stóð af þremur götum. Þrátt fyrir að hverfið mitt hafi ekki fengið verðskuldaða athygli á þessum tíma þá var það nú eitthvað sem ekki olli miklum áhyggjum hjá okkur þeim sem voru á barnsaldri. Það eru að mestu dásamlegar minningar sem sitja eftir af ævintýrum æskuáranna hér úr Innri-Njarðvík.

Það hefur ýmislegt breyst á síðustu árum og talsvert annar bragur á frá  því sem ég þekkti og kynntist á yngri árum. Langt var að sækja skóla fyrir minni fætur og því mikilvægt að ná skólabílnum sem þá gekk á milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur á nokkurra tíma fresti. Í dag hafa samgöngur mikið lagast og gengur nú hópferðabíll á hálftíma fresti í gegnum hverfið sem gerir ungviðum hér auðveldara fyrir að stunda íþróttir, tómstundir og t.d. fara í Vatnaveröld án þess að þurfa að skipta um strætó hjá Krossmóa.

Öflugir skólar og leikskólar

Já, mikið vatn hefur runnið til sjávar síðustu tvo áratugi. Frá því að vera nálægt hundrað manna byggð hýsir Innri-Njarðvík nú yfir 4.000 þúsund manns. Í dag er þetta sennilega einn eftirsóttasti búsetustaður í Reykjanesbæ. Tekist hefur að byggja upp öfluga skóla og leikskóla þar sem mikil metnaður er lagður í nám, íþróttir og öruggt uppeldisumhverfi.

Akurskóli reis hér í hverfinu fyrir nokkrum árum og hafa aðstæður og það starf sem þar er unnið verið til fyrirmyndar frá upphafi til þessa dags. Leikskólar, þar sem unnið er metnaðarfullt starf í þágu okkar yngsta fólks, hafa bæst við til að uppfylla þörf hjá síauknum fjölda barnafólks hér í Innri-Njarðvík.

Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka reis síðan Stapaskóli, glæsileg hönnun sem allir íbúar bæjarins geta sannarlega verið stoltir af. Einnig mun rísa þar íþróttahús með frábærri aðstöðu til íþróttaiðkunar, löglegur völlur fyrir körfuboltann og 25 metra sundlaug sem ég tel að eigi eftir stuðla að frekari uppbyggingu okkar annars frábæra hóps ungs íþróttafólks hér í Reykjanesbæ.

Tenging við ­náttúruna

Ég tel nokkuð fyrirsjáanlegt að áhersla verði á að byggðin í Reykjanesbæ færist með strandlengjunni nær höfuðborgarsvæðinu. Dalshverfi III er nú að verða til þar sem hönnun og skipulag er til fyrirmyndar. Gefur þetta líka aukið tækifæri til að tengja hverfið við útivistarpardísir okkar Sólbrekkuskóg og Seltjörn. Reykjanesbær hefur aldeilis náð að lyfta því svæði upp síðustu ár. Göngustígar í kringum Seltjörn og aðstaðan í skóginum á góðviðrisdegi er ómetanlegt. Við í Samfylkingunni höfum því fullan hug að fylgja eftir okkar fjölskylduvænu stefnu og gefa íbúum aukna möguleika á að njóta þessara náttúruperla.

Ég hef upplifað mikinn samhug meðal nágranna minna í Innri-Njarðvík. Flestir eru boðnir og búnir í að rétta hjálparhönd. Nágrannavarsla er talin sjálfsögð og hvort heldur það eru litlir hlutir líkt og barn týni vettling eða eitthvað annað stærra þá er fólk hér til staðar tilbúið að hjálpa.

Fjölskyldustefnan sem Reykjanesbær hefur tileinkað sér og tók gildi 1. janúar 2020 endurspeglast í okkar samfélagi. Gerir mig og má gera aðra stolta af því að búa hér í Reykjanesbæ, bráðlega stærsta sveitarfélag landsins næst höfuðborginni.

Sigurrós Antonsdóttir,
varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.