Hvers eiga Suðurnesin að gjalda?
Hælisleitendakerfið á Íslandi hefur á undanförnum árum þróast í algerar ógöngur. Hingað hefur flætt mikill straumur fólks sem hefur óskað eftir sk. alþjóðlegri vernd. Mikill fjöldi þessa fólks hefur fengið úrræði á Suðurnesjum en reyndin er sú að úrræðin eru miklu frekar úrræðaleysi með miklu álagi á innviði og samfélögin þar.
Staðreyndin er sú að langflestum hælisleitendum er brottvísað eftir einhverja mánuði eða ár og fá endurkomubann fari þeir ekki innan gefins frests. Þeir fá meira að segja sumir borgað nokkur hundruð þúsund krónur fyrir að fara náðarsamlegast heim til sín.
En af hverju er svona mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd brottvísað? Það er vegna þess að þeir eru einfaldlega ekki flóttamenn eða í þörf fyrir alþjóðlega vernd (hæli). Hér er ekki átt við Úkraínumenn, en þeir hafa fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum til eins árs í senn á grundvelli fjöldaflótta.
Þeir tugir milljarða af almannafé sem fara árlega í hælisleitendakerfið er því sóað til einskis. Fyrirfram er enda ljóst að langflestar umsóknir um alþjóðlega vernd hér eru tilhæfulausar, einfaldlega vegna landfræðilegrar legu Íslands.
Þá er óþolandi að þessi tilbúni vandi skuli valda jafn miklu álagi á innviði á Suðurnesjum og raun ber vitni, sem og á samfélagið. Það birtist í auknu öryggisleysi, sérstaklega barna og ungmenna, sem geta ekki lengur um frjálst höfuð strokið. Svo er komið að börnum er varla lengur óhætt að fara ein í strætó til dæmis. Skólakerfið ræður illa við álagið og hafa ungmenni jafnvel ekki komist í suma áfanga í Fjölbraut fyrir vikið og lengi má telja. Órói og deilur milli hópa innflytjenda setur svo svip sinn á samfélagið og hefur komið til handalögmála oftar en ásættanlegt er.
Með framangreindum rökum viljum við stöðva þennan straum umsækjenda um alþjóðlega vernd og snúa þeim til baka áður en þeir komast í Íslenska lögsögu og spara þannig mikil óþarfa fjárútlát og mikið og óþarft álag á samfélagið á Suðurnesjum.
Elvar Eyvindsson
skipar 1. sæti Lýðræðisflokksins í Suðurkjördæmi
Kári Allansson
skipar 1. sæti Lýðræðisflokksins í Reykjavík - suður