Samkaup
Samkaup

Aðsent

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ
Föstudagur 28. janúar 2022 kl. 14:43

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ

Ég býð mig fram í 2.–3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ 26. febrúar 2022. Ég óska eftir stuðningi til þess að vinna áfram að gera góðan bæ betri fyrir íbúa í Reykjanesbæ. Ég hef setið í bæjarstjórn í Reykjanesbæ í bráðum eitt kjörtímabil og er aðalmaður í lýðheilsuráði og varamaður í fræðsluráði. Kjörtímabilið á undan var ég aðalmaður í fræðsluráði og vil koma enn frekar að því starfi. Ég er með BA gráðu í sálfræði og MBA frá Háskóla Íslands og starfa ég hjá Janusi heilsueflingu í Reykjanesbæ.

Ég hef ávallt lagt áherslu á heilsu og velferð allra bæjarbúa. Menntamál, íþróttir og tómstundir standa mér næst bæði sem foreldri fjögurra barna sem öll hafa alist hér upp en einnig vegna þess að þessir málaflokkar leggja grunn að góðu og heilbrigðu samfélagi. Reykjanesbær er fjölskyldubær og hér eru framúrskarandi leikskólar, góðir grunnskólar og framhaldsskóli ásamt blómlegu íþrótta- og tómstundastarfi. Ég hef verið virk í félagsstörfum tengdum íþróttum og skólamálum í bænum og ég tel að kraftar mínir og reynsla nýtist áfram í komandi verkefnum fyrir bæinn okkar. Íþróttamál og almenn hreyfing eru mér ofarlega í huga og vil ég halda áfram að efla lýðheilsu fyrir alla íbúa. Það að bjóða upp á heilsueflandi verkefni eykur heilbrigði, lífsgæði og ánægju og er auk þess besta forvörnin gegn einangrun og heilsubresti. Í Reykjanesbæ á að vera gott að búa, ala upp börn og vinna og þegar aldurinn færist yfir að þá sé líka séð fyrir því að eldri borgarar blómstri og líði vel. Ég vil taka þátt í að skapa gott og samheldið samfélag í bænum okkar þar sem ég hef búið meirihluta ævi minnar. Ég vil leggja mitt af mörkum til að gera bæinn okkar sem einn besta valkost á Íslandi fyrir fólk að búa í. Við erum gott samfélag og það eru næg tækifæri til að gera Reykjanesbæ að framúrskarandi bæjarfélagi. Þess vegna býð ég mig til forystu.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
bæjarfulltrúi Sjálfstæðis­flokksins í Reykjanesbæ.