„Okkar Grindavík“ leggur Grindvíkingum lið
Í ljósi stöðunnar og óvissunnar sem íbúar Grindavíkur búa við hefur verið stofnaður söfnunarreikningur undir nafninu „Okkar Grindavík“. Söfnunarreikningurinn er á kennitölu Grindavíkurbæjar og einnig verður hægt að leggja beint inn á hann eða með því að fara inn á vefslóðina styrkja.is/okkargrindavik. Söfnunin er fyrir samfélagið sjálft og mun nýtast sem stuðningur fyrir íbúa, félagasamtök og fleira. „Við munum svo leita til bæjarráðs Grindavíkur sem mun á seinni stigum skipa hóp sem sér um að úthluta þeim fjármunum sem safnast, enda með betri yfirsýn um málefni íbúa,“ segir Steinþór Jónsson hótelstjóri á Hótel Keflavík. Þaðan kom fyrsta framlagið inn á söfnunarreikninginn, ein milljón króna. Steinþór skorar á önnur fyrirtæki, sveitarfélög landsins og einstaklinga að leggja málefninu lið.
OKKAR GRINDAVÍK
Á þessum miklu óvissutímum sem dynja nú yfir íbúa Grindavíkur og samfélagið þar viljum við hjá Hótel Keflavík & KEF Restaurant leggja okkar af mörkum og sýna Grindvíkingum í verki að við sem þjóð ætlum að styðja við bakið á þeim í þessum hamförum og vera til staðar fyrir þau.
Hótel Keflavík hefur nú stofnað söfnunarreikninginn „OKKAR GRINDAVÍK“ í ljósi stöðunnar og óvissunnar sem íbúar búa við.
Við báðum bókarann okkar hana Sigrúnu Þorbjörnsdóttur að leggja inn 1.000.000,- kr framlag Hótel Keflavíkur & KEF Restaurant inn á reikninginn. Sigrún okkar er ein af þeim Grindvíkingum sem hefur þurft að yfirgefa heimilið sitt ásamt fjölskyldu sinni og gæludýrum.
Hótel Keflavík skorar á önnur fyrirtæki á landinu öllu, sveitarfélög landsins og alla samlanda okkar að styðja „OKKAR GRINDAVÍK“.
Deilum þessu áfram og fáum sem flest fyrirtæki og aðila til að taka þátt og styðja þetta mikilvæga málefni.
Söfnun þessi er fyrir samfélagið sjálft og mun nýtast sem stuðningur fyrir íbúa, félagasamtök og fleira. Við munum svo leita til bæjarráðs Grindavíkur sem mun á seinni stigum skipa hóp sem sér um að úthluta þeim fjármunum sem safnast, enda með betri yfirsýn um málefni íbúa.
Söfnunarreikninginn „OKKAR GRINDAVÍK“ er eftirfarandi;
0146-26-000001
Kt. 580169-1559
Á vefsíðunni styrkja.is/okkargrindavik verður hægt að leggja beint á reikninginn, skilað kveðjum, skorað á aðra og deilt málstaðnum áfram.
Núna er tíminn til að hjálpa. Sýnum þeim í verki að við erum hér núna og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða.
Við erum öll Grindvíkingar.
„Ótti og hræðsla byggist á því sem enginn veit og óvissu um framtíðina. Styrkur felst í að standa saman og styðja hvort annað.“
Með vinsemd og kærleika
Fyrir hönd starfsfólks og stjórnar Hótel Keflavík,
Steinþór Jónsson.
Sigrún Þorbjörnsdóttir, gjaldkeri Hótel Keflavík:
„Eins og mjög margir Grindvíkingar, þá flúði ég heimili mitt hálftíma fyrir rýmingu bæjarins.
Ég var á leiðinni í skjálftafrí yfir helgina í sumarbústaðinn okkar og tók þess vegna ekki mjög mikið með mér. Hafði þó rænu á því að taka fjölskyldumyndir með og kisurnar okkar, maðurinn minn hafði flúið með skelkaðan hundinn tveimur dögum áður.
Ég sæki vinnu á Hótel Keflavík og dæturnar eru í skólum í Reykjavík svo það hentaði okkur ekki vel að dvelja í sumarbústaðnum og keyra á milli þegar í ljós kom að við værum ekki á heimleið í bráð.
Ég var svo lánsöm að fá íbúð í Reykjavík en sat um leið uppi með engar nauðsynjar, þótt það séu dauðir hlutir þá er samt margt af því nauðsynlegt.
Okkur vantaði til dæmis rúm og sængur og ég leitaði til vinnuveitanda míns hvort það væri mögulega hægt að fá lánuð rúm og var það auðsótt mál og því reddað strax.
Þá kom upp þessi hugmynd hjá eigendum Hótel Keflavík að hefja söfnun fyrir íbúa Grindavíkur. Það er ótrúlega margt sem fólk hefur þurft að kaupa aukalega til að koma sér upp nýju heimili og kostnaðurinn er fljótur að fara upp.
Ég tók ákvörðun strax að halda utan um kostnaðinn og hjá minni fjölskyldu er hann kominn vel á annað hundrað þúsund og ég veit að það er þannig hjá flestum, fyrir utan allt annað tjón sem íbúar sitja uppi með.
Það er þakkarvert hvað margir eru tilbúnir að styðja við Grindvíkinga og vona ég að fleiri fyrirtæki fylgi þessu eftir og taki þátt í þessu risastóra verkefni sem framundan er.“
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur:
„Fyrir hönd íbúa Grindavíkurbæjar þakka ég af heilum hug þennan styrk og velvild í okkar garð.
Á síðastliðnum vikum hafa margir Grindvíkingar fundið svo sterkt fyrir tilfinningunni þakklæti og hún hefur drifið okkur áfram. Það er gott að finna hversu margir hafa staðið við bak okkar og stutt með ýmsum hætti á þessum erfiðu tímum.
Það er ljóst að framundan er mikil uppbygging í Grindavík og verkefnið er risavaxið.
Við munum tryggja að úthlutun þessa styrkja verði þannig háttað að þeir nýtist íbúum bæjarins sem allra best.“