Fréttir

„Ekki meir af svona vitleysu“ - Friðjón setur ofan í við þingkonu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 13. október 2022 kl. 16:10

„Ekki meir af svona vitleysu“ - Friðjón setur ofan í við þingkonu

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður, virðist ekki vera í takt við raunveruleikann þessa dagana á meðan Reykjanesbær tekur hlutfallslega á móti flestum flóttamönnum á Íslandi án sérstaks stuðnings frá ríkinu. Núna eru innviðir í Reykjanesbæ komnir að þolmörkum vegna þessa en á sama tíma er fjármagn að lækka til HSS (Heilbrigðisstofnun Suðurnsja). Um 29% íbúa Reykjanesbæjar eru af erlendum uppruna,“ segir Friðjón Einarsson, formaður Bæjarráðs Reykjanesbæjar á Facebook síðu sinni en Bryndís sem er formaður allsherjar- og menntamálanefndar kallar eftir því að flóttafólki fái að dvelja saman á ákveðnu svæði fyrstu vikur þeirra eða mánuði á Íslandi og stunda nám og vinnu.

Bryndís vill ekki tala um úrræðið sem flóttamannabúðir en lítur sérstaklega til Reykjanesbæjar. Friðjón Einarsson er ekki ánægður með þessa framgöngu þingmannsins.

„Er ekki kominn tími til að Bryndís vakni og sjá raunveruleikann í dag? Reykjanesbær hefur borið hita og þungan í þessu verkefni og því miður án stuðnings eða samráðs frá ríkinu. Ekki meir af svona vitleysu, hingað og ekki lengra. Nú þurfa önnur sveitarfélög að stíga fram og taka ábyrgð. Og Bryndís, betra væri að þú heyrðir fyrst í heimamönnum í Reykjanesbæ áður en þú kemur fram með svona hugmynd,“ skrifar Friðjón.

Bryndís ræddi þetta við ruv.is og segir m.a.: „Sumir kynnu að kalla þetta flóttamannabúðir en þetta eru búsetuúrræði þar sem líka er verið að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, félagsráðgjöf, það er leikskóli og það er skóli og það er haldið utan um þetta fólk,“ segir Bryndís. Hún segir þetta úrræði geta haft marga kosti.