Fréttir

„Nauðsynlegt er að ræða um hlutina á mannamáli“
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 14. október 2021 kl. 11:15

„Nauðsynlegt er að ræða um hlutina á mannamáli“

– Forvarnir frá skóla og alla leið heim

Verkferlar ef grunur er um fíkniefnasölu og/eða neyslu í skólum Reykjanesbæjar eru nú til skoðunar hjá barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar. Nefndin leggur til að sviðsstjóri fræðslusviðs og teymisstjóri barnaverndar taki eftirfarandi til skoðunar og ákveði í framhaldinu næstu skref varðandi gerð verkferla sem gilda fyrir alla skóla í Reykjanesbæ. Mælt er með að slíkt verði unnið í góðu samstarfi við hlutaðeigandi aðila. Verkferlar verði svo lagðir fyrir fund barnaverndarnefndar þegar þeir eru tilbúnir og taki gildi eigi síðar en 1. janúar 2022 og fyrr ef hægt er.

Meðal annars verði skoðað:

Tiltæk viðbrögð og úrræði

Hvaða viðbrögð, úrræði og stuðningur þurfa að vera til staðar

Fyrirkomulag forvarna

Samstarf heimila og skóla

„Ef upp koma slík mál í skólum okkar er nauðsynlegt að bregðast við á viðeigandi hátt. Nauðsynlegt er að ræða um hlutina á mannamáli, hvað skal varast og hvað skal til bragðs taka ef nemendur, starfsmenn skóla eða aðrir verða vitni að sölu og/eða neyslu fíkniefna á skólalóð. Barnaverndarnefnd hefur áhyggjur af unga fólkinu okkar.

Mjög mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn séu upplýstir svo hægt sé að taka samtalið heima og vera meðvitaður um stöðuna, fræða börnin okkar um hættuna og halda umræðunni gangandi til þess að vera vakandi í nærumhverfi barnsins.

Með þessu vill barnaverndarnefnd árétta að ein af megináherslum í stefnu Reykjanesbæjar er Börnin mikilvægust. Í því felst að styðja börn svo þau blómstri í fjölskyldunni, skólum, íþróttum og tómstundum til að auka kraft samfélagsins,“ segir í fundargerð nefndarinnar.