Fréttir

Bílstjóri á sjúkrahús og farþegi lagði á flótta eftir flugferð og harðan árekstur
Frá vettvangi slyssins í kvöld. Brak úr bílunum dreifðist yfir stórt svæði. VF-myndir: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 25. september 2020 kl. 23:24

Bílstjóri á sjúkrahús og farþegi lagði á flótta eftir flugferð og harðan árekstur

Ökumaður Toyota RAV-4 jepplings var fluttur á sjúkrahús eftir harðan árekstur á Hringbraut í Keflavík í kvöld. Farþegi sem var í bílnum lagði hlaupandi á flótta frá slysstað og er nú leitað.

Vitni sáu jepplinginn aka Hringbrautina til norðurs á miklum hraða í kvöld. Á gatnamótum Faxabrautar og Hringbrautar er hringtorg sem er upphækkað í miðju og þar tók jepplingurinn mikið stökk og hafnaði á skutbíl sem stóð á bílastæði við Hringbrautina. Jepplingurinn kastaði skutbílnum nokkra metra og valt svo. Jepplingurinn staðnæmdist svo á hvolfi og skemmdi aðra kyrrstæða bifreið við götuna.

Vitni horfðu á tvo einstaklinga skríða út úr flaki jepplingsins, ökumann og farþega. Ökumaðurinn beið á vettvangi slyssins en farþeginn lagði á flótta og sást hlaupa niður Hringbraut og upp Vatnsnesveg. Lögregla leitaði hans.

Eigandi skutbílsins sem jepplingurinn hafnaði fyrst á var kominn upp í rúm og var að sofna þegar hann hrökk upp við mikinn hávaða úti á götunni. Þar sá hann bílinn sinn gjörónýtan og jepplinginn á hvolfi á götunni. Íbúi á Brekkubraut var inni í stofu í rúmlega 100 metra fjarlægð frá slysstaðnum. Hann lýsti hljóðunum frá árekstrinum sem mikilli sprengingu. Hann sá farþega jepplingsins hlaupa á brott af vettvangi, Hringbraut til norðurs og svo austur Vatnsnesveg.

Fjölmennt lögreglu- og björgunarlið kom fljótt á vettvang, enda vettvangur slyssins skammt frá bæði lögrelgu- og slökkvistöðinni í Reykjanesbæ.

Bílstjóri jepplingsins var settur á börur og fluttur á sjúkrahús en ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort hann hafi verið mikið slasaður. Farþegans var leitað.

Hringbraut hefur verið lokuð eftir slysið á milli Faxabrautar og Skólavegar á meðan rannsókn og hreinsun á vettvangi fer fram en mkikið brak úr bílunum dreifðist um stórt svæði.

Ökumaður jepplingsins var fluttur á sjúkrahús.

Jepplingurinn hafnaði á hvolfi eftir að hafa stokkið á hringtorginu og hafnað á bifreið sem stóð á bílastæði við Hringbrautina.

Frá vinnu lögreglu og slökkviliðs á vettvangi í kvöld.

Eignatjón var mikið eins og sjá má á þessari mynd af vettvangi. Bíllinn nær kastaðist marga metra en hann var kyrrstæður á bílastæði við götuna.

Lögreglumenn vinna að vettvangsrannsókn.

Lögreglumenn skoða vettvanginn. Brak úr bílunum dreifðist um stórt svæði.

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson