Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Fréttir

Eignarnámsbeiðni á landi undir vatnsból hafnað
Mánudagur 31. maí 2021 kl. 07:37

Eignarnámsbeiðni á landi undir vatnsból hafnað

Í gildandi aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga er gert ráð fyrir að nýtt vatnsból sveitarfélagsins yrði tekið í notkun á síðari hluta skipulagstímabilsins. Skipulagstímabilið er 2008–2028. Þegar árið 2017 var hafinn undirbúningur að málinu en í aðalskipulaginu var þegar gert ráð fyrir hinu nýja vatnsbóli sunnan Reykjanesbrautar.

Svæðið sem um ræðir tilheyrir Heiðarlandi Vogajarða en það land er í sameign sveitarfélagsins og nokkurra annarra aðila. Af hálfu meðeigenda sveitarfélagsins að landinu komu fram ábendingar um staðsetningu vatnsbólsins, sem leiddu til þess að ákveðið var að breyta staðsetningunni í samræmi við þær ábendingar. Ráðist var í breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins í samræmi við þetta. Þessu næst tóku við samningaviðræður við meðeigendur sveitarfélagsins að landinu, þar sem sveitarfélagið setti fram beiðni um kaup þess á landsvæðinu sem þyrfti fyrir hið nýja vatnsból.

Meðeigendur sveitarfélagsins hafa ekki viljað ljá máls á því að selja landið, heldur vilja útfæra málið með öðrum hætti. Ekki náðist samkomulag um það. Sveitarfélagið taldi því samningaviðræður fullreyndar og óskaði eftir eignarnámsheimild samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi. Beiðnin var send atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu þann 20. september 2020.

Ráðuneytið birti úrskurð sinn loks þann 17. maí 2021, þar sem beiðni sveitarfélagsins var hafnað. Málefni nýs vatnsbóls er nú í uppnámi, þar sem ekki fæst heimild ráðuneytisins til að umrætt land undir vatnsból verði tekið eignarnámi.

„Það verkefni bíður nú sveitarstjórnar að leita leiða til að finna lausn á þessu brýna og mikilvæga máli,“ skrifar Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum í pistli sem hann birti í lok síðustu viku.