Efla sjálfsmat, sjálfstraust og þrautseigju ungs fólks
- Forvarnarverkefni gegn brottfalli ungmenna úr námi og starfi
Flugið er forvarnarverkefni í Suðurnesjabæ og Sveitarfélaginu Vogum sem miðar að því að vinna gegn brottfalli ungmenna úr námi og starfi. Verkefnið er samstarf milli grunnskóla þessara sveitarfélaga og fjölskyldusviðs Suðurnesjabæjar. Þátttakendur eru nemendur í 10. bekk, forráðamenn þeirra, námsráðgjafar og fulltrúar félagsþjónustunnar. Námsráðgjafar grunnskólanna sjá um tilvísunarferlið í verkefnið, segir á vef Sveitarfélagsins Voga, þar sem verkefnið er kynnt.
Markmið Flugsins er að efla sjálfsmat, sjálfstraust og þrautseigju ungs fólks í áhættuhópi, ásamt því að tryggja virkni þeirra í námi og starfi. Með fyrirbyggjandi aðgerðum er unnið að því að styrkja einbeitingu og framtíðarsýn þátttakenda. Einnig er fylgst með framvindu nemenda eftir að þeir útskrifast úr grunnskóla, og þeir sem þurfa á aðstoð að halda fá stuðning til að ná árangri í námi eða starfi.