34,4% íbúa Reykjanesbæjar og 30,3% íbúa Grindavíkur eru erlendir ríkisborgarar
Á Suðurnesjum eru 32,2% íbúa erlendir ríkisborgarar. Í Reykjanesbæ voru þeir 8.369 talsins þann 1. desember sl. eða 34,4% íbúa. Erlendir ríkisborgarar eru einnig næstfjölmennastir í Reykjanesbæ þegar horft er til allra sveitarfélaga á landinu. Aðeins í höfuðborginni Reykjavík búa fleiri erlendir ríkisborgarar og eru 23,6% íbúa. Þetta kemur fram í samantekt Þjóðskrár og miðast við íbúatölur frá 1. desember 2024.
Í öðru sæti á Suðurnesjum er Grindavík með 30,3% íbúa. Þar eru 422 af 1.391 íbúa erlendir ríkisborgarar.
Í Sveitarfélaginu Vogum eru 24,2% erlendir ríkisborgarar, 431 af 1.784 íbúum.
Erlendir ríkisborgarar eru svo 23,5% íbúa í Suðurnesjabæ. Þar búa 4.220 manns og af þeim eru 991 erlendur ríkisborgari.
Í samantekt Þjóðskrár kemur fram að á Suðurnesjum er hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara, 32,2% og Vestfirðir koma næst með 23,8% íbúa með erlent ríkisfang. Lægsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang er á Norðurlandi eystra, 12,1%.
Þegar horft er til einstakra sveitarfélaga á landsvísu þá er hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara í Mýrdalshreppi. Alls eru 64,9% íbúa hreppsins með erlent ríkisfang.