Segja fallið frá fyrri áherslum um að fækka þeim sem Reykjanesbær veitir þjónustu
„Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt ríka áherslu á að minnka fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem Reykjanesbær tekur á móti og veitir þjónustu. Á árinu 2024, með dyggum stuðningi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, tókst loks að koma böndum á og dreifa móttöku umsækjenda betur og á fleiri sveitarfélög. Til að mynda var húsnæði JL hússins í vesturbæ Reykjavíkur tekið í notkun og hýsir allt að 400 manns, sem léttir vonandi nokkuð á stöðunni í Reykjanesbæ,“ segir í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ við fundargerð velferðarráðs bæjarins frá 12. desember sl.
Þar var til umræðu samningur um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og samningur um samræmda móttöku flóttafólks.
„Samningsdrögin og viðaukar sem teknir voru fyrir í velferðarráði þann 12. desember sl., fela í sér talsverða óvissu sem felst ekki síst í því hver stefna nýrrar ríkisstjórnar í málefnum útlendinga verði. Við höfum því miður upplifað að fjöldatölur í samningum hafa engan veginn staðist hingað til og því full ástæða til að stíga varlega til jarðar við endurnýjun þeirra,“ segir í bókuninni.
Þá segir: „Í samningi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, um samræmda móttöku flóttafólks, sem nú stendur til að framlengja, sést að fallið hefur verið frá fyrri áherslum, að fækka þeim sem Reykjanesbær veitir þjónustu skv. samningnum niður í 100, og gerir samningurinn ráð fyrir að Reykjanesbær veiti allt að 250 einstaklingum þjónustu í senn og hvergi er minnst á sameiginlegt markmið að fækka þeim.
Greiðslur ríkisins með þeim einstaklingum sem fá þjónustu í lengri tíma en eitt ár, eða allt að 3 ár, lækka verulega eftir fyrsta árið. Það er ljóst að sá hópur þjónustuþega, sem enn þarf á þjónustunni að halda að fyrsta ári loknu, hefur þyngri og fjölþættari þjónustuþarfir en aðrir. Það kallar því á hærra þjónustustig fyrir hvern einstakling á árum 2-3, sem hlýtur að kalla á hærri greiðslur en ekki lægri eins og samningurinn gerir ráð fyrir.
Í ljósi þess að óvissa ríkir um hvernig skipan og hver stefna nýrrar ríkisstjórnar verður í útlendingamálum, teljum við rétt að samþykkja ekki endurnýjun og viðauka við samninga við Vinnumálastofnun um umsækjendur um alþjóðlega vernd annars vegar og við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks hins vegar á meðan sú staða er uppi.
Við teljum einfaldlega ekki ábyrgt að skuldbinda Reykjanesbæ með þessum hætti á meðan ekki er ljóst hvernig málum verður háttað.“
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ sem rita undir bókunina eru Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson.