Ógnaði afgreiðslustúlku með hnífi og hafði á brott með sér pening úr afgreiðslukassa
- Fjölmennt lögreglulið að störfum í Innri-Njarðvík
Vopnað rán var framið nú á fjórða tímanum í Stapagrilli í Innri-Njarðvík. Maður með hettu, sólgleraugu, grímu fyrir munni og nefi og vopnaður hnífi ógnaði starfsfólki. Hann opnaði sjóðsvél í afgreiðslu og tók þaðan peninga. Lögreglan á Suðurnesjum staðfestir að hafa málið til rannsóknar mál en verst allra frétta.
Fjölmennt lögreglulið er að störfum í Innri-Njarðvík þessa stundina. Fjöldi lögreglubíla fer um götur í hverfinu og verið er að afla gagna úr eftirlitsmyndavélum í nágrenni við vettvanginn. Þá hafa lögreglumenn rætt við fólk á svæðinu.
„Það kemur hingað inn maður eða strákur í svartri úlpu. Hann var með hettu yfir sér, með sólgleraugu og buff eða eitthvað slíkt fyrir nefinu. Hann kemur að afgreiðsluborðinu og stendur þar í smá stund. Þá tekur hann upp mjög skrítinn hníf og plastpoka. Hann teygir hendina í afgreiðslukassann og opnar hann og byrjar að taka peninginn úr kassanum. Starfsstúlka hjá mér fer þá og reynir að loka kassanum en þá veifar hann hnífnum að henni og hún bakkar snögglega. Hann tekur peninginn og hleypur út og fyrir hornið og bak við húsið þar sem hann hverfur sjónum okkar,“ segir Grétar Þór Grétarsson, eigandi Stapagrills, í samtali við Víkurfréttir um ránið sem framið var í Stapagrilli nú um miðjan dag.
— Var afgreiðslustúlkunni brugðið?
„Já, hún er alveg í sjokki og líður illa yfir þessu“.
Annar starfsmaður var á bakvið við grillið þegar ránið átti sér stað og kallaði þegar til lögreglu. „Hún heyrði lætin og kallaði til lögreglu sem var mjög fljót á staðinn.“
Grétar Þór, eigandi Stapagrills, segir þetta vera sjokk þegar svona gerist í rólegu hverfi eins og Innri-Njarðvík. Það er þétt net eftirlitsmyndavéla inni í versluninni en Grétar Þór er þegar búinn að setja sig í samband við Securitas og settur verður upp neyðarhnappur sem er beintengdur lögreglunni.
Lögreglumenn ræða saman framan við Stapagrill við Tjarnabraut í Innri-Njarðvík.
Lögreglumenn á eftirlitsferð á Njarðvíkurbraut.
Lögreglubifreið á ferð um Innri-Njarðvík nú síðdegis.