Íþróttir

Arnar Freyr aftur til Danmerkur
Miðvikudagur 22. ágúst 2012 kl. 14:44

Arnar Freyr aftur til Danmerkur

Keflvíkingurinn Arnar Freyr Jónsson semur aftur við Aabyhoj. Er spenntur fyrir því að fá annað tækifæri.

Bakvörðurinn Arnar Freyr Jónsson sem leikið hefur með Keflavík undanfarið tímabil er staddur í Danmörku þessa dagana þar sem hann er að ganga frá samningi við danska úrvalsdeildarliðið Aabyhoj í Árósum. Arnar lék um stutta stund með liðinu árið 2010 en varð þá fyrir því að slíta krossband í hné og hélt því heim á ný.

Arnar var á leið á æfingu þegar blaðamaður Víkurfrétta náði tali af honum en hann kvaðst spenntur fyrir því að fá annað tækifæri í Danmörku. Hann sagði jafnframt að gengið yrði frá samningum á næstu dögum.

Arnar  lék með Keflvíkingum í gegnum alla yngri flokka félagsins og síðar meistaraflokk. Hann lék með liði Grindavíkur í tvö tímabil áður en hann hélt upphaflega til Danmerkur. Þaðan kom hann aftur á heimaslóðir í fyrra.