Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrsta mark Stefans kom Keflavík áfram í bikarnum
„Ég vil fá'ann!“ Stefan Alexander biður um boltann en þessi stóri og stæðilegi framherji braut ísinn í gær þegar hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 20. apríl 2023 kl. 10:03

Fyrsta mark Stefans kom Keflavík áfram í bikarnum

Það er venjan að leikirnir milli Keflavíkur og ÍA séu hörkuleikir þar sem ekkert er gefið eftir. Það átti svo sannarlega við þegar liðin mættust í gær á gervigrasinu við Nettóhöllina í 32 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ í gær. Eftir framlengingu höfðu heimamenn baráttusigur með einu marki gegn engu. Stefan Alexander Ljubicic skoraði fyrsta mark sitt fyrir Keflavík á 105. mínútu og tryggði Keflavík farseðilinn í sextán liða úrslit.

Gestirnir voru sprækari í byrjun og áttun nokkur stórhættuleg færi, skot í stöng og þverslá. Eftir því sem leið á leikinn komust Keflvíkingar betur inn í hann og í seinni hálfleik stjórnuðu þeir leiknum og sóttu nokkuð stíft.

SSS
SSS

Stefan skallar í mark ÍA en hann er að ná sér eftir meiðsli og hefur sýnt í tveimur síðustu leikjum að hann er gríðarlega ógnandi og hættulegur í sókninni.

Eftir markalausan venjulegan leiktíma þurfti því að grípa til framlengingar og áfram hélt Keflavík að sækja. Á 105. mínútu fékk Keflavík aukastpyrnu á stórhættulegum stað, hægra megin rétt utan vítateigs. Sami Kamel tók spyrnuna og sendi fyrir markið þar sem Stefan stökk manna hæst og skallaði óverjandi fyrir markvörð Skagamanna.

Við markið færðist meira kapp í Skagamenn og hitastigið hækkaði í mönnum. Rétt undir lokin missti ÍA mann af velli fyrir brot á Jóhann Þór Arnarssyni sem var við það að sleppa í gegn, beint rautt og Skagamenn því manni færri en það var blásið til leiksloka skömmu eftir brotið. Hörkubaráttusigur heimamann í höfn og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflvíkinga, var að vonum sáttur að leikslokum: „Svona eiga bikarleikir að vera,“ sagði hann ánægður að vera kominn í næstu umferð.

Jóhann Þór við það að komast í gegn en brotið á honum.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og má sjá myndasafn neðst á síðunni auk viðtals við markaskorara Keflavíkur, Stefan Alexander Ljubicic.

Keflavík - ÍA (1:0) | 32 liða úrslit 19. apríl 2023