Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Golfklúbbur Suðurnesja 50 ára í dag
Bergvíkin, 3. braut par 3. Sennilega frægasta golfbraut á Íslandi. Gríðarlega falleg en slegið er yfir Atlantshafið, strandlengjan prýtt með stórgrjóti. Af meistarateigum er brautin 180 metrar. VF-mynd/pket.
Þriðjudagur 4. mars 2014 kl. 14:06

Golfklúbbur Suðurnesja 50 ára í dag

Öllum boðið í afmælisfagnað í Leirunni n.k. laugardag.

Golfkúbbur Suðurnesja er 50 ára í dag en hann er stofnaður 4. mars 1964. Klúbburinnn státar af einum besta 18 holu golfvelli landsins, veglegu klúbbhúsi og fjölbreyttri aðstöðu fyrir kylfinga í Leirunni.

Fyrsti formaður var Ásgrímur Ragnars en með honum í stjórn var m.a. Þorbjörn Kjærbo en en hann var fyrsti Íslandsmeistari karla í golfi sem GS eignaðist. Hann vann titilinn þrjú ár í röð 1968-1980 og var í titilbaráttu mörg ár á eftir.

Guðfinna Sigurþórsdóttir, sem var ein af stofnendum klúbbsins varð fyrsti Íslandsmeistari kvenna í golfi en hún vann titilinn einnig þrisvar sinnum, á árunum 1968 til 1971. Dóttir hennar, Karen Sævarsdóttir, gerði enn betur þegar hún fór að keppa og vann m.a. Íslandsmeistaratitilinn í golfi kvenna átta ár í röð, 1989-1996. Karen er sigursælasti kylfingur landsins. Þá hafa þrír GS félagar orðið Íslandsmeistarar í höggleik, Gylfi Kristinsson 1983, Sigurður Sigurðsson 1988 og Örn Ævar Hjartarson 2001.

Formaður GS í dag er Friðjón Einarsson en hann tók við af Sigurði Garðarssyni sem lét af formannsembættinu í des. sl. eftir fimm ár í embættinu.

Í GS eru 500 félagar og hefur sú tala verið svipuð undanfarin ár. Mikil tímamót urðu þegar klúbburinn stækkaði 9 holu Hólmsvöll í 18 holur auk þess að taka í notkun glæsilegt klúbbhús árið 1986. Sama ár var haldið Íslandsmót í golfi.

Í Leiru hefur verið byggð allt frá landnámi og mikil allt til ársins 1930.  Talið er að Steinunn hin gamla frænka Ingólfs Arnarsonar hafi búið í  Stór-Hólmi en hún átti land á Rosmhvalanesi allt frá Hvassahrauni.  Á þeim stað þar sem golfvöllurinn stendur nú var að minnsta kosti búið á tíu stöðum á uppvaxtarárum Tryggva Ófeigssonar upp úr aldamótunum 1900. Þannig drýpur sagan af hverju strái í Leirunni og er Hólmsvöllur í Leiru sennilega merkilegastur íslenskra golfvalla fyrir þær sakir.

Afmælishóf og opið hús verður í golfskálanum í Leiru nk. sunnudag frá kl. 14 þar sem tímamótanna verður minnst. Allir eru velkomnir og verður boðið upp á kaffiveitingar í tilefni dagsins.

Þeir bræður Hörður og Hólmgeir Guðmundssynir eiga mestan heiður af uppbyggingu Hólmsvallar í Leiru. Þeir eru báðir látnir. Hörður, sem þarna stendur t.v. var formaður í 17 ár og Hólmgeir sem þarna slær fyrsta teighöggið við vígslu 18 holu vallar árið 1986, var lengi vallarstjóri en einnig ötulasti sjálfboðaliði GS í áratugi.

Guðfinna Sigurþórsdóttir, einn af stofnendum klúbbsins var fyrsti Íslandsmeistari kvenna í golfi. Hér er hún á sínum meistaraárum í Leirunni.

Karen Sævarsdóttir, dóttir Guðfinnu og Sævars Sörensonar, gerði enn betur en móðir sín og varð Íslandsmeistari kvenna í höggleik átta ár í röð, frá 1989 til 1996 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og reyndi við atvinnumennsku í tvö ár. Hún kennir golf í dag og er mjög vinsæll golfkennari.

Þorbjörn Kjærbo, var fyrsti afrekskylfingur GS og varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð 1968 til 1970 og í titilbaráttu næstu fimmtán árin á eftir.

Þrír Íslandsmeistarar karla, Sigurður Sigurðsson 1988, Gylfi Kristinsson 1983 og Örn Ævar Hjartarson 2001. Þeir tóku allir titilinn á Grafarholtsvelli í Reykjavík.

Séð yfir Hólmsvöll í Leiru, 7. flötina í forgrunni.

Frá byggingu golfskálans 1986.

Fyrsta brautin við opnun Hólmsvallar 1964. Þarna er núna byrjendavöllurinn „Jóel“.

Frá byggingu seinni 9 holnanna á Hólmsvelli, hér sést 1. flötin og umhverfi.

Falleg mynd úr Leirunni, fremst er 14. flöt og braut. Snæfellsjökull í fjarska.