VÍS bikarinn í körfu: Keflavík áfram en afhroð hjá Njarðvík í stórtapi
Það voru ólík hlutskipti hjá nágrönnunum Keflavík og Njarðvík í 8 liða VÍS bikarúrslitum í kvöld. Þeir fyrrnefndu sigruðu Hauka en Njarðvíkingar guldu afhroð í Vesturbænum og töpuðu stórt gegn KR.
Njarðvíkingar voru sjóðheitir fyrir nokkrum dögum gegn Keflavík en nú var annað uppi á teningnum. Þeir lentu 19 stigum undir eftir fyrsta leikhluta og munurinn jókst í 25 stig í hálfleik, 59-36. Munurinn jókst svo í síðari hálfleik. Það stóð ekki steinn yfir steini hjá Njarðvíkingum og lokatölur urðu 116-67, fjörutíu og níu stiga tap!
Mario og Veigar Páll skoruðu mest, 17 og 15 stig, aðrir voru með undir tíu stigum. Evans Raven sem fór mikinn gegn Keflavík skoraði ekki nema 5 stig.
Keflvíkingar unnu góðan sigur í spennandi leik gegn Haukum í Blue höllinni í Keflavík. Lokatölur urðu 96-88 og ríkjandi bikarmeistarar eru komnir í undanúrslit.
Jafnt var á með liðunum nær allan leikinn en Keflvíkingar voru sterkari þegar leið á seinni hálfleik og þeir tryggðu sér sanngjarnan sigur.
Igor Maric, Jaka Brodnik og Ty-Shon Alexander skoruðu allir 18 stig, Remu Emil 14, Sigurður P. 12 stig og Halldór Garðar 9 stig.