Íþróttir

Grindvíkingar í toppbaráttuna eftir sigur á Val
Sito skoraði sigurmark Grindvíkinga þremur mínútum fyrir leikslok. VF-myndir/pket.
Miðvikudagur 23. maí 2018 kl. 21:20

Grindvíkingar í toppbaráttuna eftir sigur á Val

Grindvíkingar sigruðu Íslandsmeistara Vals á Grindavíkurvelli í Pepsi-deildinni í knattspyrnu 2-1 og sigurmarkið kom þremur mínútum fyrir leikslok. Frábær frammistaða hjá heimamönnum sem skjóta sér í toppbaráttuna með þessum sigri í kvöld.

Grindvíkingar byrjuðu vel og voru ákveðnir í upphafi leiks. Þeir uppskáru mark á 13. mínútu þegar Aron Jóhannsson átti skot langt fyrir utan teig, boltinn skoppaði fyrir framan markvörð Vals sem á klaufalegan hátt náði ekki að verja. Nokkur heppnisstimpill yfir markinu en í stíl við góða frammistöðu heimamanna í upphafi leiks.
Valsmenn vöknuðu aðeins við vondan draum og uppskáru jöfnunarmark rétt fyrir leikhlé þegar þeir fengu víti á 44. mínútu. Patrick Pedersen skoraði og jafnaði leikinn rétt áður en dómari sendi menn í te í hálfleik.
Leikurinn var í jafnvægi í síðari hálfleik og fátt um fína drætti en heimamenn voru ekki hættir því þeir skoruðu sigurmarkið á 87. mín. Spænski framherjinn sem kom til Grindavíkur fyrir stuttu, Sito Seoane, skoraði þá mark beint úr aukaspyrnu frá vítateigsboganum, boltinn endaði eftir gott skot í bláhorninu, óverjandi fyrir markvörð Vals.

Grindvíkingar eru komnir í toppbaráttuna með þessum góða sigri og eru í 2. sæti með 10 stig, stigi á eftir Breiðabliki.

Aron skoraði fyrra mark Grindvíkinga með góðu skoti.

Anton markvörður Vals hefði getað gert betur þegar skot Arons kom á markið.

Boltinn liggur í markinu, 1-0.