Keflavík og Njarðvík hefja nýja árið á sigrum
Keflavík og Njarðvík gefa ekkert eftir í toppbaráttu Subway-deildar kvenna í körfuknattleik en bæði lið unnu góða sigra í gær. Keflavík er efst í deildinni með ellefu sigra í tólf leikjum, Njarðvík er með níu sigra í tólf leikjum og er jafnt Stjörnunni að stigurm sem er með jafnmarga sigra en hefur leikið þrettán leiki.
Keflavík - Haukar 66:59
Keflvíkingar lentu í smá vandræðum þegar þær tóku á móti Haukum í gær í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í gær. Keflavík hefur misst tvo sterka leikmenn úr sínum röðum en fyrirliðinn Katla Rún Garðarsdóttir er ólétt og leikur ekki meira á þessu tímabili, þá hefur Agnes Svansdóttir haldið til Bandaríkjanna í nám.
Haukar byrjuðu betur og náðu snemma átta stiga forskoti (4:12) en þegar fyrsta leikhluta lauk var munurinn eitt stig (16:17).
Gestirnir héldu sínu striki í öðrum leikhluta og héldu sókn Keflvíkinga í skefjum. Keflavík elti allan fjórðunginn og gestirnir höfðu sex stiga forystu í hálfleik (26:32).
Keflvíkingar mættu mun ákveðnari til seinni hálfleik og um miðjan þriðja leikhluta voru þær búnar að jafna (38:38). Þær náðu að komast yfir (42:40) en þá settu Haukar niður þrist og gestirnir höfðu eins stigs foryrstu fyrir síðasta leikhlutann.
Haukar juku forystuna í sex stig í fjórða leikhluta (44:50) en um miðjan fjórðunginn fóru Keflvíkingar í gang og settu stopp á sókn gestanna. Keflavík sneri vörn í sókn og breytti stöðunni úr 47:52 í 59:54 á þriggja mínútna kafla. Að lokum var sigurinn Keflvíkinga sem hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu.
Birna Valgerður Benónýsdóttir og Daniela Wallen skiluðu átján stigu hvor og Elisa Pinzan fimmtán. Þá tók Wallen fjórtán fráköst og Thelma Ágústsdótir þrettán.
Njarðvík - Þór Akureyri 84:57
Njarðvíkingar sýndu Þór Akureyri enga gestrisni þegar norðankonur mættu í Ljónagryfjuna í gær í Subway-deild kvenna. Heimakonur náðu tólf stiga forystu í fyrsta leikhluta (26:14) og höfðu mikla yfirburði í leiknum.
Í hálfleik var staðan 39:31 en Njarðvíkingar héldu áfram að þjarma að gestunum í þriðja leikhluta. Bilið á milli liðanna tók að breikka aftur og þegar þriðja leikhluta lauk höfðu Njarðvíkingar náð fimmtán stiga forystu (62:47).
Þegar fjórði leikhluti fór af stað var ljóst að það væri formsatriði fyrir heimakonur að klára leikinn og því fengu ungir leikmenn Njarðvíkur að spreyta sig á vellinum og þegar leiknum lauk voru fjórir fimmtán ára leikmenn inni á vellinum.
Emilie Hesseldal og Ena Viso voru með tuttugu stig hvor fyrir Njarðvík og þær Hulda María Agnarsdóttir og Jana Falsdóttir tíu stig hvor.
Hólmfríður Eyja Jónsdóttir lék sínar fyrstu mínútur í efstu deild kvenna í gær og setti níður sín fyrstu stig en hún og þær Hulda María Agnarsdóttir, Sara Björk Logadóttir og Kristín Björk Guðjónsdóttir eru allar fimmtán ára uppaldir Njarðvíkingar.
Grindavík sat hjá í þessari umferð en Grindvíkingar áttu að leika gegn Blikum sem hafa dregið lið sitt úr keppni.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, kíkti í Blue-höllina og Ljónagryfjuna í gær og smellti af nokkrum myndum sem má sjá neðar á síðunni.