Heklan
Heklan

Íþróttir

Misnotuð færi og mikilvæg stig í súginn
Dröfn Einarsdóttir augljóslega svekkt að leikslokum. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 27. júní 2023 kl. 09:37

Misnotuð færi og mikilvæg stig í súginn

Keflavík tapaði á heimavelli í gær fyrir Tindastóli í Bestu deild kvenna í knattspyrnu með einu marki gegn engu. Úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir Keflvíkinga sem stjórnuðu leiknum lengst af og settu mikla pressu á gestina. Stólarnir vörðust vel og beittu hættulegum skyndisóknum og eftir eins slíka skoruðu þær sigurmarkið.

Það var augljóst að Keflvíkingar ætluðu sér ekkert annað en sigur í leiknum en þær pressuðu hátt og sköpuðu alls kyns vandræði í vörn Tindastóls. Gestirnir gátu fátt nema varist og sent langa bolta fram sem oftar en ekki var skilað til baka að vörmu spori.

Dröfn pressar á markvörð Stólanna en gestirnir voru í nauðvörn stóra hluta af leiknum.

Dröfn Einarsdóttir og Linli Tu komust í þónokkuð mörg hálffæri en markvörður Tindastóls sá við öllu sem á markið kom. Eftir um hálftíma leik dró til tíðinda. Þá sóttu Stólarnir hratt upp hægri kantinn, boltinn gefinn fyrir á Murielle Tiernan sem tók gott viðstöðulaust skot í fjærhornið, óverjandi fyrir Vera Varis í marki Keflavíkur (32'). Gestirnir komnir með forystu gegn gangi leiksins.

Aðeins dró af Keflvíkingum eftir markið en rétt fyrir leikhlé tók Anita Lind Daníelsdóttir aukastpyrnu af löngu færi og lét vaða á markið. Skotið hafnaði í slánni og gestirnir sluppu með skrekkinn.

Fyrirliðinn Kristrún Ýr Holm komin í álitlegt færi en varnarmaður gestanna náði að trufla hana og ekkert varð úr þessu.

Seinni hálfleikur fór frekar rólega af stað en svo tóku Keflvíkingar við fyrri iðju og pressuðu hátt á gestina. Sem fyrr var vörn Tindastóls mjög þétt og varðist vel. Eins vantaði upp á gæðin í fyrirgjöfum Keflavíkur sem rigndi fyrir mark Tindastóls en fáar þeirra fóru á réttu staðina.

Linli Tu hefur átt betri daga en hún var í strangri gæslu allan leikinn.

Þegar fór að draga að lokum leiksins settu heimakonur enn meiri þunga í sóknina og við það opnuðust glufur í vörninni. Í tvígang slapp Keflavík með skrekkinn, fyrst komst Tiernan ein á móti markmanni en Vera Varis varði vel frá henni. Þá áttu Stólarnir frábært skot í slá og niður en Keflvíkingar hreinsuðu frá.

Gestirnir héldu út leiktímann og fögnuðu eins og þær hefðu orðið heimsmeistarar þegar blásið var til leiksloka. Að sama skapi voru vonbrigði Keflvíkinga mikil.

Keflavík er í sjöunda sæti með tólf stig en Stjarnan komst upp fyrir þær með jafnmörg stig en betri markatölu. Tindastóll fór úr fallsæti og er einu stigi á eftir Keflavík í því áttunda.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og er myndasafn frá honum neðst á síðunni.

Keflavík - Tindastóll (0:1) | Besta deild kvenna 26. júní 2023