Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Njarðvík og Þróttur unnu sína leiki
Lokamark Njarðvíkur kom eftir góðan undirbúning Hlyns Magnússonar. VF-myndir: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 1. júlí 2021 kl. 09:26

Njarðvík og Þróttur unnu sína leiki

Níunda umferð annarrar deilar karla í knattspyrnu var leikin í gær. Suðurnesjaliðin voru í fjórum efstu sætunum fyrir umferðina en hæst bar viðureign Suðurnesjaliðanna Reynis og Njarðvíkur sem Njarðvík vann. Þróttur vann öruggan sigur á Kára.

Reynir - Njarðvík 1:3

Framan af var leikur Suðurnesjaliðanna jafn en ef eitthvað var þá voru Njarðvíkingar aðeins beittari í sínum aðgerðum. Reynismenn sakna fyrirliða síns, Rahinja Pajic, sem hefur verið frá í síðustu leikjum liðsins vegna meiðsla og vörnin virkar óörugg þegar sótt er á hana.

Eftir markalausan fyrri hálfleik dró til tíðinda, á 48. mínútu kom fyrsta mark leiksins og var þar að verki Bergþór Ingi Smárason sem kom Njarðvík í forystuna eftir gott spil Njarðvíkur upp vinstri kantinn og fyrirgjöf á Bergþór sem skallaði boltann í netið einn og óvaldaður á markteig Reynis.

Ekki liðu nema fjórar mínútur þar til Reynir hafði jafnað leikinn þegar boltinn barst til Kristófers Páls Viðarssonar eftir háa fyrirgjöf. Kristófer náði að taka boltann með sér og stýra honum fram hjá Robert Blakala í mark Njarðvíkinga (52').

Njarðvík náði forystunna á ný þegar Magnús Þórðarson fékk boltann fyrir utan teig Reynis og tók skotið. Engin hætta virtist vera á ferðinni en skotið rataði í markið án þess að Rúnar Gissurarson, markvörður Reynis, næði að koma vörnum við (56').

Að lokum var það skoski framherjinn Kenneth Hogg sem gulltryggði Njarðvík öll stigin þegar Hlynur Magnússon átti gott hlaup inn fyrir vörn Reynis, tók á móti sendingu og lagði boltann fyrir Hogg sem þurfti að hafa lítið fyrir því að setja hann í markið (73'). Lokatölur 1:3 og Reynismenn eru nú komnir í sjötta sæti deildarinnar á meðan Njarðvík er í þriðja.


Þróttur - Kári 4:1

Þróttarar tóku á móti botnliði Kára í gær og þeir tóku forystu á 13. mínútu með marki Bjarka Björns Gunnarssonar. Kári jafnaði leikinn skömmu síðar (17') en Alexander Helgason skoraði undir lok fyrri hálfleiks (43') og Þróttur leiddi 2:1 þegar leikurinn var hálfnaður.

Rubén Lozano Ibancos skoraði þriðja mark Þróttar snemma í síðari hálfleik (50') og Bjarki Björn skoraði annað mark sitt í leiknum og fjórða mark Þróttar á 71. mínútu og frekar auðveldur sigur í höfn hjá heimamönnum sem eru í næstefsta sæti deildarinnar.

Þróttarar hafa verið á góðu skriði undanfarið, búnir að vinna þrjá síðustu leiki sína og eru næstefstir.

Reynismenn byrjuðu Íslandsmótið af krafti og voru orðnir efstir í jafnri deildinni. Eitthvað virðist vera farið að síga á ógæfuhliðina hjá þeim en þeir hafa aðeins náð einu stigi í þremur síðustu leikjum. Kannski fjarvera fyrirliðans hafi mikið um það að segja en vörn Reynis hefur ekki verið eins vel skipulögð í síðustu leikjum liðsins.

Þróttur og Njarðvík virðast hins vegar vera komin í gang og hafa verið á sigurbraut í síðustu leikjum. Njarðvík er með sautján stig í þriðja sæti en Þróttur átján stig í því næstefsta, KV vermir toppinn með nítjan stig.

Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, skellti sér á leik Reynis og Njarðvíkur og myndasafn úr leiknum fylgjir fréttinni.

Reynir - Njarðvík (1:3) | 2. deild karla 30. júní 2021