Njarðvík tapaði á Álftanesi og verður að vinna þrjá leiki í röð
Njarðvíkingar fóru út á Álftanes í kvöld og mættu heimamönnum í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Bónusdeildar karla. Eftir tap í fyrsta leiknum var mikilvægt fyrir Njarðvík að jafna seríuna strax en það tókst þeim ekki og eru því komnir í erfiða stöðu, verða að vinna þrjá leiki í röð til að koma sér í undanúrslitin. Lokatölur 107-96, eftir að staðan í hálfleik hafði verið 52-41.
Álftnesingar byrjuðu mun betur og leiddu allan fyrri hálfleikinn. Eftir fimm mínútur í seinni hálfleik var munurinn kominn upp í tuttugu stig og virtust Njarðvíkingum allar bjargir bannaðar. Næstu átta stig voru þó þeirra og smá vonarneisti kviknaði hjá njarðvískum áhorfendum. Frábær endurkoma Njarðvíkinga sem tókst að koma muninum niður fyrir tíu stigin fyrir lokafjórðunginn, staðan 74-65.
Fyrstu mínúturnar í fjórða leikhluta voru jafnar, Haukur Helgi Pálsson var sínum gömlu félögum erfiður en hann virðist vera nálgast sitt gamla form eftir erfið meiðsli. Njarðvíkingar fengu góð tækifæri á að minnka muninn en hittni þeirra var ekki nægjanlega góð fyrir utan þriggja stiga línuna. Vörnin hélt sömuleiðis ekki nógu vel og hægt og örugglega misstu þeir leikinn endanlega frá sér og Álftanes vann að lokum öruggan sigur,
Khalil Shabazz var stigahæstur Njarðvíkinga, endaði með 25 stig. Dominykas Milka skilaði hæstu framlagi, 23 (19 stig og 8 fráköst).
Njarðvíkingar þar með búnir að grafa sér djúpa holu og verða að vinna þrjá leiki í röð en næsti leikur er á þeirra heimavelli, n.t. á föstudagskvöld.