Íþróttir

Njarðvík vann Stólana í framlengingu
Chaz Williams var stigahæstur hjá Njarðvík í sigri á Íslandsmeisturunum. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 18. nóvember 2023 kl. 10:21

Njarðvík vann Stólana í framlengingu

Tveir góðir heimasigrar litu dagsins ljós í Reykjanesbæ í gær þegar Njarðvíkingar unnu Tindastól og Keflavík vann Álftanes í Subway-deild karla í körfuknattleik. Njarðvík deilir efsta sætinu með Val og Þór Þorlákshöfn eftir sjö umferðir en Stjarnan getur komist í sömu stöðu  með sigri í lokaleikjum umferðarinnar sem fram fara í dag.

Njarðvík - Tindastóll 101:97

Milka var með tuttugu stig sigri á Tindastóli.

Njarðvíkingur unnu meistara Tindastóls í hörkuleik í Ljónagryfjunni í gær. Eftir jafnan fyrsta leikhluta (15:15) tóku heimamenn forystuna og leiddu með sex stigum í hálfleik (39:33.

Staðan breyttist lítið í þriðja leikhluta (67:61) en í þeim fjórða fóru gestirnir að klóra í bakkann. Hægt og rólega unnu Stólarnir upp muninn og síðustu mínúturnar skiptust liðin á forystu. Liðin skiptust á að setja niður þrista í lokin; Callum Dawson kom gestunum í forystu með þristi (82:82) en Chaz Williams svaraðí í sömu mynt (85:83). Þá var komið að Pétur Rúnari Birgissyni hjá gestunum (85:86) en af öllum svaraði Domynikas Milka með þristi (88:86). Pétur reyndi við annan þrist sem gekk ekki og Milka tók frákastið, hann steig hins vegar út fyrir og gestirnir fengu boltann. Þeir jöfnuðu svo (88:88) og tryggðu sér framlengingu.

Í framlengingunni höfðu heimamenn betur, Chaz Williams setti niður þrist í stöðunni 97:96 og setti svo niður vítakast stuttu síðar.

Williams var stigahæstur með 21 stig en þeir Domynikas Milka og Mario Matasovic voru með tuttugu stig hvor.

Keflavík - Álftanes 97:78

Sigurður Pétursson átti góðan leik í gær. VF/Hilmar Bragi

Leikur Keflavíkur og Álftaness var jafn í byrjun og einungis þrjú stig skildu liðin að eftir fyrsta leikhluta (20:17). Keflvíkingar sýndu sínar bestu hliðar í öðrum leikhluta og lögðu þá grunninn að öruggum sigri. Heimamenn unnu leikhlutann með ellefu stigum og höfðu því fjórtán stiga forskot í hálfleik (47:33).

Þriðji leikhluti var jafn og staðan hvorki versnaði né skánaði fyrir gestina, áfram var sami munur á liðunum (71:57). Keflvík hleypti Álftanesi aldrei í stöðu til að ógna sigrinum og að lokum var sigurinn þeirra. Nítján stiga sigur og lokatölur 97:78.

Remy Martin var stigahæstur heimamanna með 22 stig, þá kom Halldór Garðar Hermannsson með sautján og Jaka Brodnik með sextán. Sigurður Pétursson var öflugur í gær, hann gerði þrettán stig og átti þar að auki fimm stoðsendingar á félaga sína.


Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, brá sér í Blue-höllina í gær og má sjá myndasafn hans neðst á síðunni.

Keflavík - Álftanes (97:78) | Subway-deid karla 17. nóvember 2023