Oft er þörf en nú er nauðsyn!
Formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur kallar eftir stuðningi bæjarbúa
Ágætu íbúar Reykjanesbæjar!
Í Reykjanesbæ fer fram mjög öflugt íþróttastarf svo eftir er tekið víða um land. Mikil áhersla er lögð á allt unglingastarf sem skilar sér í frambærilegum ungmennum sem eins og dæmin sanna hafa náð góðum árangri jafnt innanlands sem utan. Þá hafa fjölmargir íþróttamenn úr Reykjanesbæ gerst atvinnumenn í íþrótt sinni.
Stór hluti í starfsemi íþróttafélaganna er að eiga lið í fremstu röð. Knattspyrnulið Keflavíkur hefur í áratugi, með örfáum undantekningum, verið í efstu deild, á meðal þeirra bestu. Á þessu keppnistímabili er á brattann að sækja og því nauðsynlegt að leikmenn, forráðamenn liðsins, stuðningsmenn og íbúar taki höndum saman og hjálpist að við að tryggja veru liðsins í efstu deild.
Knattspyrnudeild Keflavíkur leitar nú eftir stuðningi bæjarbúa. Til stendur að senda 3.000 kr. valgreiðslu í heimabanka allra íbúa Reykjanesbæjar sem eru 18 ára og eldri. Það skal tekið skýrt fram að hver og einn velur hvort hann greiðir.
Með því að greiða í heimabankanum leggur þú knattspyrnunni í Keflavík lið. Þeir sem greiða verða um leið skráðir félagsmenn knattspyrnudeildarinnar og gildir það frá greiðsludegi til 31. ágúst 2016.
Allir sem greiða fyrir 31. ágúst fara sjálfkrafa í pott og verður dreginn út einn ársmiði keppnistímabilið 2016 fyrir hverja 50 sem greiða.
Við vonum að sem flestir sjái sér fært að styðja knattspyrnufólkið okkar og taka um leið þátt í starfi deildarinnar.
Með kveðju,
Þorsteinn Magnússon,
formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur