Íþróttir

Sannfærandi sigur Grindavíkur í Sláturhúsinu
Mánudagur 8. október 2012 kl. 21:46

Sannfærandi sigur Grindavíkur í Sláturhúsinu

Íslandsmeistarar Grindavíkur byrjar nýtt keppnistímabil í Dominos-deild karla af krafti. Þeir komu í heimsókn í..

Íslandsmeistarar Grindavíkur byrja nýtt keppnistímabil í Dominos-deild karla af krafti. Þeir komu í heimsókn í Toyota-höllina í Keflavík 1. umferð deildarinnar í kvöld og unnu sannfærandi sigur á grönnum sínum. Lokaúrslit urðu 80-95 fyrir gestina úr Grindavík sem eiga deildarmeistaratitil að verja.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en gestirnir leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 16-20. Áfram var jafnt með liðunum í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik var 38-42.

Viðreisn
Viðreisn

Það var góður kafli undir loka þriðja leikhluta sem skóp Grindvíkingum gott forskot en liðið setti niður fjórar þrista en fram að því hafði Keflavík komist yfir í leiknum og virtist vera að snúa leiknum sér í vil. Grindvíkingar skiptu þá um gír og höfðu níu stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 58-67. Grindvíkingar gerðu svo nánast út um leikinn með góðri byrjun í fjórða leikhluta og náðu mest 19 stiga forystu. Lokatölur 80-95 fyrir Íslandsmeistarana úr Grindavík.

Hjá gestunum úr Grindavík var Aaron Broussard atkvæðamestur en hann skoraði 23 stig. Samuel Zeglinski var einnig drjúgur en hann skoraði 22 stig. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var svo með 18 stig. Hjá Keflavík skoraði Michael Graion 19 stig, Valur Orri Valsson var með 17 stig og Almar Guðbrandsson 14 stig.

Það var haustbragur á spilamennsku beggja liða og nokkuð um mistök. Keflvíkingar tefldu fram Michael Graion í fyrsta skipti í kvöld en hann er stór og stæðilegur leikmaður sem vafalaust á eftir að bæta sig í næstu leikjum. Grindvíkingar líta ágætlega út en spurning hvort að þeir hafi eins mikla yfirburði í deildinni og á síðustu leiktíð.

Næstu leikir hjá þessum liðum fara fram á fimmtudagskvöld. Þá tekur Grindavík á móti Snæfelli í Röstinni. Keflvíkingar fara aftur á móti í heimsókn í Garðabæinn og leika gegn Stjörnunni.

Keflavík-Grindavík 80-95 (16-20, 24-22, 20-28, 20-25)

Keflavík: Michael Graion 19/10 fráköst, Valur Orri Valsson 17, Almar Stefán Guðbrandsson 14/7 fráköst/4 varin skot, Kevin Giltner 10, Darrel Keith Lewis 8, Snorri Hrafnkelsson 6/5 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 6.

Grindavík: Aaron Broussard 23/7 fráköst, Samuel Zeglinski 22/4 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 18/8 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 9/8 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 8/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 7, Jón Axel Guðmundsson 4, Þorleifur Ólafsson 4.

VF-myndir/Hilmar Bragi