Steinlágu heima fyrir Eyjakonum
Grindvíkingar steinlágu á heimavelli í Grindavík fyrir ÍBV í Pepsi-deild kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Eyjakonur skoruðu 4 mörk geng engu heimakvenna.
Skellurinn kom strax á 2. mínútu leiksins þegar Katie Kraeutner komst ein í gegn og skoraði, stöngin inn. Rétt fyrir hálfleik kom svo annað mark ÍBV. Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði það mark.
Kristín Erna bætti svo við þriðja marki ÍBV og öðru marki sínu þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Fjórða markið og rothöggið fyrir Grindavík kom svo níu mínútum síðar þegar Cloé Lacasse fór í hraðaupphlaup frá miðju, stakk Grindavíkurstúlkur af og sendi boltann í netið framhjá markverði Grindavíkur.
Heimakonur í Grindavík vilja örugglega gleyma þessum leik sem fyrst. Þær eru um miðja deild, hafa unnið tvo leiki og tapað tveimur. Næsti leikur er gegn Stjörnunni í Garðabæ á laugardaginn.
Myndirnar frá leiknum tók Hilmar Bragi.