Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Stórafmæli UMFG
Ungur stuðningsmaður Grindavíkur á leik í körfunni nýverið. VF/JPK
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 20. október 2023 kl. 06:24

Stórafmæli UMFG

Mönnum ber ekki saman um hvort miða eigi stofnárið við 1963 eða 1935. | Íþróttafélag Grindavíkur stofnað árið 1935, nafni síðan breytt eða nýtt félag stofnað?

Ungmennafélag Grindavíkur (UMFG) var stofnað á síðustu öld, það er óvéfengt. Hins vegar greinir aðila á, hvort bera líti á stofnárið sem 1963 eða 1935. Í þessari grein verður saga íþróttafélaga í Grindavík rifjuð upp og rætt við tvo aðila sem tengjast málinu en eru á sitthvorum vagninum. Halldór Ingvason telur sig hafa verið einn þeirra sem stofnaði nýtt ungmennafélag árið 1963, UMFG.

Gunnlaugur Hreinsson sem hefur verið mikið tengdur UMFG í gegnum tíðina, margsinnis verið formaður eða verið í stjórn félagsins og er einmitt í stjórn félagsins í dag, var formaður í kringum árið 2005 og lagði fyrir þáverandi stjórn UMFG, að skv. fundargerð bæri að líta á stofnárið sem 1935 og stofnárinu var þá breytt úr 1963 í 1935.

Ekki verður tekin afstaða til málsins í þessari grein, eingöngu er verið að varpa ljósi á þau sjónarmið sem koma fram hjá báðum aðilum.

Saga íþrótta í Grindavík nær aftur til 1935, þ.e.a.s. þegar Grindvíkingar fóru að æfa og keppa undir nafni íþróttafélags en eflaust höfðu Grindvíkingar stundað alls kyns íþróttir allt frá því að byggð myndaðist þar. Íþróttafélag Grindavíkur (ÍG) var stofnað 3. febrúar árið 1935 og var fyrsti formaður félagsins Jón Tómasson. Skv. fundargerðum var góð virkni í félaginu fyrstu árin og eitthvað um keppnir, mest í knattspyrnu en einnig var mikið um að leiksýningar væru settar upp.

18. janúar árið 1952 fórst báturinn Grindvíkingur með fimm manna áhöfn, þar af fjórir Grindvíkingar en þeir voru Jóhann Magnússon, skipstjóri, Guðmundur Hermann Kristjánsson, vélstjóri, Þorvaldur Jón Kristjánsson og Sigfús Bergmann Árnason, voru þeir allir mjög liðtækir íþróttamenn og/eða leikarar. Þessi atburður hafði lamandi áhrif á allt byggðalagið og þar með á starf Íþróttafélagsins. Þó var einhver starfsemi í nokkur ár á vegum félagsins, t.d. fimleikaæfingar og knattspyrna en eftir 1955 má segja að starfsemin hafi lagst að mestu niður.

Árið 1963 komu Halldór Ingvason sem hafði búið í Grindavík síðan 1947, Jón Leósson sem kom frá Akranesi og Bragi Guðráðarson sem ættaður var úr Borgarfirði, saman og rættu stofnun íþróttafélags og var hugmyndin að það yrði ungmennafélag. Tómas Þorvaldsson sem var formaður ÍG þegar starf félagsins lagðist að mestu af, hafði ávinning af þessu og kom að máli við þá Jón og Braga og spurði þá hvort þeir vildu ekki endurvekja Íþróttafélag Grindavíkur þar sem félagið ætti nokkrar eignir, m.a. hálfkláraðan knattspyrnuvöll og landið undir honum, svo og tæki í íþróttasal. Halldór er einn af fáum sem er til frásagnar í dag þar sem flestir sem komu beint að þessu máli, eru fallnir frá.

Halldór Ingvason (ártalinu í merki Grindavíkur hefur verið breytt).

Nýtt félag eða nafnabreyting

„Ég þekkti Tómas Þorvaldsson ágætlega og ræddi þetta við hann. Hann tók mínu erindi vel og sýndi því skilning að við vildum frekar stofna ungmennafélag en endurvekja ÍG, svo að við gætum keppt á landsmótum á vegum Ungmennafélags Íslands. Við vorum sammála um að þar sem hið nýja ungmennafélag væri óbeint að taka við af íþróttafélaginu, gætu eignir ÍG runnið óhindrað yfir í hið nýja ungmennafélag, UMFG. Það verður að viðurkennast þegar hugsað er til baka, að ekki kemur nægilega ljóst fram í fyrstu fundagerð að verið var að stofna nýtt félag og skrifa hefði átt fyrstu fundargerð í nýja fundargerðarbók. Það var ekki gert og þess vegna var kannski eðlilegt að að einhver misskilningur hafi komið fram. Það kemur fram í fundargerðinni að borið er undir fundinn að breyta nafni og lögum eldra félags og töldum við það nægja til að skilgreina nýtt félag stofnað árið 1963, þ.e. UMFG. Milli áranna 1935 til 1963 var ekkert ungmennafélag í Grindavík heldur íþróttafélag og voru lög þess félags ekki  í samræmi við lög ungmennafélaga. Þess vegna verður að líta svo á að stofnár UMFG sé 1963, ekki 1935. Ég hafði samband við óháðan lögfræðing og spurði álits, þegar hann vissi að hvorki hefði félagið heitið ungmennafélag né verið með lög ungmennafélaga, beri að líta á 1963 sem stofnárið.

Mér finnst líka lítið vera gert úr starfi þeirra sem stofnuðu ÍG, ég efast um að margir í Grindavík viti að það félag hafi verið til því umræða síðustu ára hefur öll verið á þann veg  að UMFG hafi verið stofnað árið 1935. Með því er verið að afmá nafn Íþróttafélags Grindavíkur og ég veit að ef ég ætti hagsmuna að gæta varðandi það félag, myndi ég ekki sætta mig við að nafn félagsins komi hvergi fram. ÍG og UMFG voru ekki bæði stofnuð 5. febrúar árið 1935, það vita allir. Þess vegna er rétt að halda merki ÍG hátt á lofti og virða það frá stofnun fram í október 1963, þegar UMFG varð til,“ segir Halldór.

Gunnlaugur Hreinsson.

Verkum skipt

Þegar UMFG var stofnað var strax mikill kraftur í félaginu og skipti fólk með sér verkum. Jón sem kom frá Akranesi eins og áður var getið, sá um knattspyrnuhlutann, Halldór sem hafði kynnst körfuknattleik á Núpi í Dýrafirði og Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni, sá um þann hluta og eftir að eiginkona Halldórs, Helga Emilsdóttir, flutti til Grindavíkur þetta ár 1963, sá hún um handbolta sem hún hafði æft í Reykjavík. Auk þess var deildunum skipt upp í eldri og yngri deild og var Gunnar Vilbergsson fyrsti leiðtogi yngri deildar. Var þetta gert til að virkja sem flesta í starfi.

Gunnlaugur Hreinsson er frá Mosfellssveit, flutti til Grindavíkur árið 1971 og hóf búskap með eiginkonu sinni, Láru Marelsdóttur sem er frá Grindavík. Gunnlaugur sem sjálfur hafði stundað íþróttir og þá mest knattspyrnu, sýndi starfi UMFG strax mikinn áhuga og ekki leið á löngu þar til hann var kosinn í stjórn félagsins og varð formaður samtímis, árið 1976. „Ég tók upp með sjálfum mér að skoða fundargerðarbækur og tók eftir í fundargerðinni frá 11. og 18. október árið 1963, að Íþróttafélag Grindavíkur var að halda sinn fund og í fundargerðinni 18. október, kemur skýrt fram að lagt er undir fundinn að nafni félagsins og lögum sé breytt, svo félagið ætti kost á því að keppa á meðal annarra ungmennafélaga. Einnig er vert að geta þess að í afsali þar sem Einar G. Einarsson fær heimild til að afsala fyrir hönd Járngerðarstaðartorfunnar, ÍG lóðina sem er undir íþróttavellinum. Það kemur fram í þessu afsali að ÍG er ekki heimilt að framselja né veðsetja lóðina, þess vegna gat lóðin aldrei runnið inn í annað félag. Þess vegna ákvað Tómas Þorvaldsson og þeir sem voru í stjórn ÍG á þessum tíma, að breyta frekar nafninu og lögum félagsins. Í mínum huga er stofnárið þar með 1935. Ef ég myndi skipta um nafn í dag, mun fæðingardagur minn ekki breytast. Ég kynnti þetta fyrir stjórn UMFG í kringum árið 2005, við vorum öll sammála um þetta og því lét ég breyta ártalinu,“ sagði Gunnlaugur.