Sverrir: Þurfum grimmd og baráttu gegn Skallagrími
Þjálfari Keflvíkinga hefur ekki áhyggjur af þreytu leikmanna
Sverrir Þór þjálfari Keflvíkinga var sáttur eftir langan vinnudag, en eftir að hafa sigrað Hauka í bikarnum í gær og tryggt sæti í úrslitum, horfi hann ásamt liðinu á hinn undanúrslitaleikinn þar sem Skallagrímur og Snæfell áttust við. Hann lét það ekki nægja og horfði aftur á leikinn hjá sínum konum þegar heim var komið. Nóg af körfubolta það kvöldið.
„Það er jákvætt að við þurfum ekki að bíða lengi eftir úrslitaleiknum. Stemningin og mómentið er enn til staðar. Fólk veit að það er stutt í leik og ég hugsa að það verði vel mætt,“ sagði Sverrir í samtali við VF.
Sverrir var ekki alveg sáttur við varnarleikinn hjá sínu liði í gær en erlendur leikmaður Hauka fór mikinn í sókninni. „Einbetiningin var ekki alveg nægilega mikil og við vorum ekki að halda þeim fyrir framan okkur.“ Hann telur svo að liðið eigi talsvert inni sóknarleg og telur það jákvætt fyrir það sem koma skal á laugardag.
Skallgrímur og Keflavík mættust í lok janúar þar sem Skallarnir höfðu nauman sigur í hörkuleik. Keflvíkingar hafa hins vegar lagt þær tvisvar af velli í vetur. Skallagrímskonur komu upp í efstu deild á þessu tímabili en hafa marga reynslumikla leikmenn innanborðs. Skallagrímur er í efsta sæti deildarinnar og hafa unnið þar 9 leiki í röð. Keflvíkingar eru í þriðja sæti tveimur stigum frá toppnum.
„Þær eru auðvitað fullar af reynslu og engin kornung að spila hjá þeim. Þær eru búnar að sanka að sér svo mörgum leikmönnum að það er varla hægt að tala um þær sem nýliða í deildinni. Við þurfum að vera ofaná í allri baráttu og grimmd í þessum leik,“ segir Sverrir um andstæðingana á laugardag.
Hin 18 ára Emelía Ósk Gunnarsdóttir lék 37 mínútur, mest allra leikmanna gegn Haukum í undanúrslitum. Sverrir óttast ekki að sínir leikmenn verði ekki klárar í slaginn á laugardag þrátt fyrir leik svo skömmu áður. „Þær eru mjög „fit“ og fljótar að jafna sig“. Sverrir segist vera með ýmislegt í pokahorninu á laugardag, bæði leikplan og svo auðvitað „plan b“.
Stelpurnar munu að mestu taka því rólega fyrir leikinn en gefa sér þó tíma til þess að fagna saman afmæli Ariana Moorer í kvöld. Á leikdegi fer liðið saman í morgunverð og mæta síðan galvaskar í Höllina.