SSS
SSS

Íþróttir

Þróttarar stofna meistaraflokk í körfubolta
Birkir með þeim Arnóri Inga Ingvasyni, þjálfara, og Róberti Smára Jónssyni sem leika báðir með Þrótti í þriðju deildinni í vetur. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 8. nóvember 2020 kl. 12:34

Þróttarar stofna meistaraflokk í körfubolta

Spenntir fyrir því að taka þátt í þriðju deildinni í vetur og setja markið hátt – ætla að kynna körfubolta fyrir ungmennum Voga

Birkir Alfons Rúnarsson er formaður meistaraflokks Þróttar og í forsvari fyrir liðið. Víkurfréttir spjölluðu við Birki í byrjun vikunnar til að heyra hvernig körfuboltinn í Vogum færi af stað.

Þróttur sendir lið til leiks í vetur

„Við höfum allir æft körfubolta upp yngri flokka í Njarðvík eða Keflavík og erum góðir félagar, nokkrir okkar eru með sterka tengingu við Voga. Það kom fyrir að við leigðum salinn í Vogum og áður en við vissum var Marteinn, framkvæmdastjóri Þróttar, mættur á svæðið til að selja okkur þessa hugmynd og tengja við krakkana í Vogum á sama tíma,“ segir Birkir aðspurður hvernig það hafi komið til að Þróttur sendi körfuboltalið til leiks í vetur.

– Hve eru margir að æfa hjá ykkur og hver þjálfar liðið?

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Þetta eru í kringum fimmtán strákar og ég sé um alla umgjörðina en Arnór Ingi Ingvason þjálfar liðið. Svo erum við að fá gestaþjálfara af og til,“ segir Birkir. „Frikki Rúnars mætti á svæðið og við erum að reikna með Hemma Hreiðars í heimsókn á næstu dögum. Við erum alla vega búnir að bjóða honum að koma þar sem við erum í sama liði og hann.“

Sýna því skilning að geta ekki æft

„Við hófum æfingar í júlí og það hefur verið góður stígandi í þessu. Við erum reyndar eini meistaraflokkurinn á Suðurnesjum sem hefur ekki æft frá því í byrjun október vegna harðari sóttvarnarreglna í Vogum en annars staðar. Það er auðvitað fúlt að geta ekki æft eins og hinir en við verðum að sýna þessari stöðu skilning. Það hefur verið frábær stemmning í hópnum og við höfum spilað tvo æfingaleiki í haust, báða gegn liðum í 2. deild, Reyni Sandgerði og Leikni Reykjavík. Við lærðum mikið af þessum leikjum og þeir sýndu okkur að við getum vel staðið í liðum sem eru í deild fyrir ofan okkur svo það jók bara sjálfstraust og spenning fyrir að hefja keppni.“

– Hver eru markmiðin í vetur?

„Við ætlum að hafa hrikalega gaman af þessu í vetur og skemmta stuðningsmönnum. Eitt af þeim loforðum sem við gáfum er að halda barna- og unglinganámskeið í vetur fyrir unga Þróttara, það verður efnt og við ætlum að kynnast krökkunum í bænum. Við ætlum að fylla Vogaídýfuhöllina og vera skemmtilegasta félagið í deildinni – Vogamenn kunna þetta, sjáið bara fótboltaliðið og gleðina þar. Við vitum ekki mikið um hin liðin en engu að síður er stefnan sett á úrslitakeppni þriðju deildar í vor.“

– Hvernig hafa bæjarbúar tekið ykkur?

„Það er auðvitað nýtt fyrir þeim að það sé körfuboltalið í Vogum og það þarf að bera virðingu fyrir því. Við erum mest í samskiptum við starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar. Starfsfólkið er fáránlega næs og vilja allt fyrir okkur gera þannig að okkur líði sem best. Auðvitað kemur ýmislegt óvænt upp á þegar verið er að byrja með nýja hluti. Þegar við vorum að læra á stigatöfluna á dögunum þá kom í ljós að taflan er biluð og engin skotklukka í húsinu – en það er verið að laga þessa hluti þannig að hægt verði að spila heimaleikina í Vogum þegar mótið hefst aftur eftir hlé.“

– Eitthvað í lokin?

Það væri ekki hægt að koma svona verkefni á laggirnar án stuðnings þeirra fyrirtækja sem standa okkur að baki, Bílasprautun Magga Jóns, Nýsprautun og Jako hafa styrkt okkur og við kunnum þeim bestu þakkir fyrir það. Svo skorum við á alla Vogabúa til að fjölmenna á leiki liðsins þegar ástandið skánar, heimaleikir okkar fara fram á laugardögum miðað við núverandi mótaskrá.“