Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Mannlíf

Bítlabæjartónar á úrslitasviði Eurovision
Helgi og Nína á úrslitakvöldi Eurovision 2020.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 3. mars 2020 kl. 09:59

Bítlabæjartónar á úrslitasviði Eurovision

Suðurnesjamenn áttu hluta í einum af þátttakendum í úrslitum forkeppni Eurovision-söngvakeppni RÚV síðasta laugardag. Faðir hinnar nítján ára Nínu er Keflvíkingurinn Helgi Víkingsson en hann hefur búið á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 1997.

Nína, dóttir Helga og Rúnu Stefánsdóttur, er aðeins nítján ára gömul og og að sögn föður hennar alin upp á miklu Eurovision-heimili. Hún hefur að eigin sögn lengi stefnt að þátttöku í söngvakeppninni. Rúna móðir hennar var ein af bakröddum Selmu í „All out of Luck“ þegar hún lenti í öðru sæti í Ísrael árið 1999. Rúna gerði sér lítið fyrir og stökk inn á síðustu stundu og bakraddaði með Nínu í undarúrslitunum og það má segja að þær mæðgur hafi snert streng í brjósti þjóðarinnar þegar nafn Nínu var kallað upp öllum úr hópnum að óvörum sem síðasta lagið inn í keppnina. 

Helgi hefur trommað með nokkrum hljómsveitum í gegnum tíðina, fyrst þó með Ofris sem lenti í þriðja sæti Músíktilrauna árið 1983. Helgi lék hann í nokkur ár með Léttsveit Tónlistarskóla Keflavíkur og fleiri sveitum, þar á meðal nokkur ballhljómsveitum á Suðurnesjum. Hann fylgist alltaf vel með gangi mála suður með sjó og lék m.a. á heimatónleikum Ljósanætur árið 2017. Helgi „lemur ennþá húðir“ með nokkrum hljómsveitum og segist hafa gaman af.

Nína á sviðinu í Laugardalshöllinni.