Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Mannlíf

Gaman á lögum unga fólksins fyrir eldra fólkið
Stefanía Svavarsdóttir var flott á sviðinu og söng glæsilega. VF-myndir/pket.
Fimmtudagur 3. september 2015 kl. 16:15

Gaman á lögum unga fólksins fyrir eldra fólkið

Fimmta sýning Bliks í auga, - Lög unga fólksins, fékk frábærar viðtökur í Andrews bíósalnum á Ásbrú á þjófstartkvöldi Ljósanætur 2015. Um fimmhundruð manns, flestir miðaldra, bökkuðu nokkra tugi ára aftur í tímann og dilluðu sér undir lögum frá eða sungin á sínum tíma af Gibb-bræðrum, Micheal Jackson, Paul McCartney, John Lennon, Elvis Presley, Fleetwood Mac og fleirum. Og rifjuðu eflaust í huganum upp kveðjur sem þau sendu í þáttinn sem var við lýði í Ríkisútvarpinu í þrjá áratugi eða þar um bil. Ja, hérna, nett nostalgía. Mikið gaman og svolítið öðruvísi en í dag á tímum snaptjats, instragram og fleiri samfélagsmiðla.

Lög unga fólksins var sá þáttur sem naut hvað mestra vinsælda í ríkisútvarpinu í þrjá áratugi og tók auðvitað mið af tíðaranda og þeim sem töldust ungir á hverjm tíma. Í dag mætti ef til vill kalla hann lög eldra fólksins, segir Dagný Gísladóttir í sýningarskrá.

Stórstjörnu á sviði
Já og suður á gamla Keflavíkurhervöll voru mættar fjórar af stórstjörnum tónlistarlífs á Íslandi sem sungu tuttugu lög sem fólk á miðjum aldri og eldra hlustuðu á í „denn“. Það var við hæfi að hefja söngskemmtunina á laginu „Get back“ eftir bítlabræðurnar Cartney og Lennon en síðan fylgdu fleiri gamlir smellir. Hver (ef þú ert eldri en unglingur) man ekki eftir „The house of the rising sun“, „Daydream believer“ eða „Season in the sun“. Flott lög, sum skemmtilega væmin  en önnur með dillandi takti fyrir allan peninginn. Söngvarakvartettinn fór létt með þetta, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Pétur Örn Guðmundsson, Stefanía Svavarsdóttir og hinn eini sanni Egill Ólafsson. Allt þaulvant söngfólk og rúmlega það. Kristján Jóhannsson, sögumaður sýningarinnar fór oft mikinn og m.a. þegar hann sagði frá laginu sem hefur þann magnaða titil: „I love to love“. Ekki voru lýsingar minni við lagið „Youre the one that I want“ sem ofurparið Olivia Newton John og John Travolta sungu í myndinni „Grease“ en á fjölum Andrews voru það Stefanía Svavarsdóttir og Pétur Örn sem rúlluðu því upp. Svo komu ógleymanleg lög eins og Piano man sem Billy Joel gerði ógleymanlegt og ekki var síðra Fleetwood Mac lagið „Don’t stop“. Ekki átti ég þó von á því að upplifa tónleika þar sem Egill Ólafsson myndi syngja eitt af elstu lögum Gibb-bræða (Bee Gees) en hann fór létt með það kallinn og söng „To love somebody“. Síðasta lagið (fyrir utan uppklappslagið) var „Oh, what a night“ eða „Desember 1963“ sem hljómsveitin Four seasons gerðu mjög vinsælt árið 1975. Uppklappslagið var síðan „Waterloo“ með Abba og sungu fjórmenningarnir það saman með hjálp tónleikagesta.

Söngvararnir skiptu þessu tuttugu lögum á milli sín og gerðu þau lang flest vel eða mjög vel. Stefanía Svavardóttir heillaði undirritaðan og marga í salnum með frábærum söng og flottri framkomu. Glæsileg söngkona. Eyþór Ingi er líka frábær söngvari en hann var ekki eins duglegur að skipta um dress eins og Stefanía og fær því færri atkvæði. Pétur Örn er aðeins látlausari ef hægt er að segja svo en syngur vel. Egill Ólafsson er svo engum líkur, mikið sjarmatröll, hrósar tónlistarfólkinu, strýkur söngkonunum og þakkar öllum fyrir. Það er engin spurning að hann gefur svona sýningu auka vægi en hans þáttur í þessari sýningu var veigaminni en ég átti von á. Hann klikkar ekki á söng kallinn og er flottur á sviði en einhvern veginn fannst mér lögin sem hann flutti ekki alveg henta honum. Nú er ég kannski kominn aðeins of langt í einkunnagjöfum á söngvarana sem eru jú allir af stóra sviðinu í Reykjavíkinni og því umhverfi og því gerir maður meiri kröfur til þeirra en ef minna þekktir söngvarar væru á sviðinu.

Góð blanda
Sýningin er blönduð lögum, tali og myndbrotum, nýjum og eldri. Mjög flottur og góður kokteill. Hljómsveitarstjóri er Arnór B. Vilbergsson að venju en með honum Guðbrandur Einarsson á píanó en þeir tveir og Kristján Jóhannsson vinna saman þennan pakka, Júlíus Guðmundsson leikur á trommur, Sigurgeir Sigmundsson er á gítar, Sólmundur Friðriksson á bassa og Þorvaldur Halldórsson er með slagverk. Systurnar Sigríður og Sólborg Guðbrandsdætur sáum um bakraddir en í blásarasveit voru Kristinn Svavarsson (saxafónn), Kristín E. Ólafsdóttir (trompet) og Harpa Jóhannsdóttir (básúna). Þetta er að megninu til heimafólk en það kom líka að öðrum þáttum. Freydís Kneif Kolbeinsdóttir er sýningarstjóri, Guðný Kristjánsdóttir listrænn stjórnandi og Dagný Gísladóttir kynningarstjóri. Davíð Örn Óskarsson sér um grafík og Sara Dögg Gylfadóttir um leikmuni. Hér er ég búinn að telja upp helstu leikendur og þátttakendur. Fleiri koma að þessu enda sýningin viðamikil þar sem margt þarf að gera til að allt gangi vel.

Mér fannst mjög gaman og sennilega enn meira gaman því ég þekkti lögin lang flest vel. Þó þetta eigi að heita áhugamannasýning þá er atvinnumannabragur yfir henni. Þó hefði ég varla séð Egil Ólafsson vera með hönd í vasa á sviðinu í Hörpu en þetta er kannski óþarfa smámunasemi.
Þetta var fimmta sýning sem þeir þremenningar, Arnór, Kristján og Guðbrandur með góðum hópi heimamanna hafa staðið að í tengslum við Ljósanótt í Reykjanesbæ. Síðustu tvö árin hafa þeir fengið þekkta söngvara til að hafa sönginn eins góðan og hægt er því hann spilar stóra rullu í svona sýningum. Þó margir vilji bara hafa heimamenn þá færa þessir stórsöngvarar sýninguna á aðeins hærra plan. Það er bara þannig.
Kristján sögumaður sagði hópinn strax vera farinn að huga að sýningu næsta árs. Ég mun mæta og hlakka til.

Páll Ketilsson.

Eyþór Ingi flottur í ljósasjóinu.

Stefanía og Egill voru góð í dúett.

Eyþór Ingi og Pétur Örn saman á Andrews sviðinu.

Stefanía og tvíburarnir Sólborg og Sigríður Guðbrandsdætur.

Kristján sögumaður stóð sig vel. Fróðlegur og fyndinn texti gerir sýninguna betri.

Fjör í lokalaginu. Danshópur frá Danskompaníi var með flotta innkomu.