Þegar kirkjuklukkurnar hringja á Rás 1 á aðfangadag eru jólin komin
Oddný Guðbjörg Harðardóttir, alþingismaður, segir árið sem er að líða hafa verið bæði annasamt og viðburðaríkt. Hjá henni er enginn tími til að baka fyrir jólin en hún ætlar með eiginmanninum á tónleika með Valdimar á aðventunni.
Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Þetta hefur verið mjög annasamt og viðburðaríkt ár hjá mér í mínu starfi á Alþingi og í Norðurlandaráði. Pólitíkin hefur verið ruglingslegri en í meðalári. Eina stundina hangir ríkisstjórnarsamstarfið á bláþræði en hina stundina eru heitin endurnýjuð á milli samstarfsflokkanna. Ég var búin að spá stjórnarslitum á aðventunni en held að hamfarirnar í Grindavík hafi frestað slitunum eitthvað. Þegar við hugsum til baka til ársins 2023 þá eru það hamfarirnar í Grindavík sem koma fyrst upp í hugann og þeir erfiðu tíma sem Grindvíkingar eru að lifa nú um stundir.
Í mínu persónulega lífi stóð júlímánuður upp úr með ferðalögum um hið fagra Suðurkjördæmi og blíðu upp á hvern dag.
Ég hefði gjarnan viljað hafa haft meiri tíma með fjölskyldunni, sérstaklega barnabörnunum á árinu en er þakklát fyrir þær gæðastundir sem gáfust.
Ert þú mikið jólabarn?
Ég er mikið jólabarn og hlakka alltaf til jólanna. Desember fram að jólafríi er mjög annasamur tími í þinginu og fundað fram á kvöld flesta daga. Því hef ég verið í kappi við tímann að koma skrautinu upp heima í Björkinni en þegar hátíðin gengur í garð er samt alltaf allt tilbúið þó á síðustu stundu sé.
Hvernig hagar þú jólagjafainnkaupum?
Á hlaupum. Þó ég heiti því ár eftir ár að vera tímanlega næst þá endar þetta alltaf svona. En ég er yfirleitt búin að ákveða hvað ég ætla að kaupa þegar ég hleyp af stað. Pakkarnir komast í hús rétt fyrir jól. Við kaupum alltaf bækur handa öllum í fjölskyldunni. Það eru fastir liðir.
Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?
Ekki fyrr en rétt fyrir jól, oftast á Þorláksmessu. Ég tek eitthvað af barnabörnunum með að kaupa tré og fæ svo aðstoð hjá þeim við skreytingarnar.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Við áttum heima á Lórandsstöðinni á Gufuskálum þegar ég var tveggja til átta ára. Mamma var vön að fara í messu á Útskálum kl. sex á aðfangadag en það var of langt í kirkjuna fyrir vestan. Þess vegna varð það hefð sem við höldum enn í dag, að lesa jólaguðspjallið og syngja Heims um ból saman áður en pakkarnir eru opnaðir á aðfangadagskvöld. Eftir að við fluttum aftur í Garðinn fórum við alltaf til ömmu Tómasínu og afa Sumarliða á Meiðastöðum eftir jólamatinn og hlustuðum á biskupinn. Í minningunni voru þetta heilagar stundir. Við héldum þessum heimsóknum áfram á aðfangadagskvöld á meðan amma á Meiðastöðum lifði. Hún dó 1989 þannig að stelpurnar okkar fengu að kynnast henni og þessari jólahefð.
Skreytir þú heimilið mikið?
Svolítið. Er mjög íhaldssöm á skraut. Til dæmis fer skrautið sem stelpurnar okkar gerðu á Gefnarborg alltaf upp þó liðin séu rúm þrjátíu ár frá því að það var föndrað.
Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst? Áttu þér uppáhaldssmáköku?
Nei það er enginn tími til þess að baka. Ég bakaði eitthvað þegar stelpurnar voru litlar en satt að segja er ég ekki flink við eldhússtörfin, hvorki við bakstur eða eldamennsku.
Eru fastar jólahefðir hjá þér?
Þegar kirkjuklukkurnar hringja á Rás1 á aðfangadag kl. 18 eru jólin komin. Við kveikjum alltaf á friðarkerti við útidyrnar og svo borðum við jólamatinn hans Eiríks. Eftir matinn er jólaguðspjallið lesið og við syngjum Heims um ból við undirleik minn. Við látum alltaf ljós loga í húsinu á jólanótt. Mamma og pabbi gerðu þetta og sögðu að í gamla daga hefi fólk látið loga ljós til að vísa sjómönnum veginn heim. Við höldum þessa hefð.
Hvernig er aðventan – hefðir þar?
Undanfarin ár höfum við Eiríkur farið á jólatónleika á aðventunni. Í ár förum við á tónleika Valdimars í Hörpunni.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Allar jólahefðirnar. Sami maturinn, sama skrautið, sama jólaguðspjallið auðvitað og jólasálmarnir. Krakkarnir okkar eru algjörlega ómissandi. Þegar þau hafa verið erlendis á jólunum hafa jólin ekki verið alveg eins og þau eiga að vera. Síðast ákváðum við að fara með þeim til útlanda til að geta verið með þeim yfir hátíðarnar. En annars finnst okkur allra best að vera heima í Björkinni á jólunum.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Góð bók er besta gjöfin. Yrði fyrir vonbrigðum ef ég fengi ekki í það minnsta eina bók. Mig langar að lesa bókina Eimreiðarelítan Spillingarsaga og líka nýjustu bókina hans Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Við keyptum okkur ljóðabækurnar hans Gyrðis Elíassonar á dögunum svo þær verða lesnar um jólin.
Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?
Eiríkur eldar alltaf svínakótelettur í raspi með sveppasósu og brúnuðum kartöflum, rósakáli og öllu tilheyrandi. Við höfum stundum orðað það að breyta til en stelpurnar taka það ekki í mál.
Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?
Ég ætla að spila borðspil við krakkana okkar og við góða vini. Það er reyndar ein af jólahefðunum að spila einn daginn milli jóla og nýárs fram á nótt. Borða nammi, lesa og njóta þess að vera til.