Leikskólinn Garðasel
Leikskólinn Garðasel

Mannlíf

Tolli með stórsýningu á Ljósanótt
Föstudagur 2. september 2022 kl. 14:49

Tolli með stórsýningu á Ljósanótt

Tolli hefur opnað fyrstu stóru einkasýninguna sína um nokkurt skeið. Tolli er þekktur fyrir umfangsmiklar og kraftmiklar sýningar þar sem stór verk hans innblásinn úr náttúru Íslands fá mikið rými til að njóta sín. Slíkar sýningar hafa nánast einkennt hans feril allt frá byrjun. Hann hefur sóst í grófa umgjörð í stórum vöruhúsum, stálgrindar húsum og jafnvel ókláruðum byggingum þar sem hann breytir rýminu í gallerí með list og ljósi. 

Sýningin sem Tolli opnaði í gær, fimmtudag, hefur öll þessi einkenni. Hún er sett upp í gamalli skipasmíðastöð innst í Duus húsa þyrpingunni í gömlu höfninni í Keflavík í Reykjanesbæ. Sýningin sem er hluti af dagskrá Ljósanótt Reykjanesbæjar opnar á fimmtudagskvöld og stendur til loka sunnudags. Á Laugardagskvöldinu, hápunkti Ljósanætur verður sérstaklega hlaðið í veislu með Dj. Yamaho sem þeytir skífum í miðri lita og ljósadýrðinni fram að flugeldasýningu. 



Þorlákur Kristinsson Morthens (fæddur 3. október 1953), betur þekktur sem Þorlákur Morthens eða Tolli er íslenskur myndlistarmaður sem hefur verið þekktur fyrir landslags og abstrakt verk sín síðan á 9. áratugnum. Verk Tolla eru meðal annars í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Háskóla Íslands, auk nokkurra stofnana í Evrópu og Bandaríkjunum.

Tolli er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann hefur málað og teiknað frá unga aldri og kom frá listrænu heimili. Hann hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978 og lauk þar prófi úr nýlistadeild árið 1983. Eftir það fór hann í Hochschule der Künste í Vestur-Berlín undir handleiðslu Karl-Horst Hödicke prófessors og sneri heim 1985 og hefur starfað sem myndlistarmaður síðan. Fram að því hafði hann stundað sjómennsku við Íslandsstrendur, jafnt á fiskibátum og togurum. Hann var einnig farandaverkamaður í ýmsum sjávarplássum víða um Ísland og skógarhöggsmaður í Norður-Noregi.

Fyrstu sýningar Tolla voru í Reykjavík og á Akureyri árið 1982 og fyrsta einkasýning hans var síðan í gúmmívinnustofunni í Reykjavík árið 1984. Árin 1982 – 1992 sýndi hann tuttugu og tvær einkasýningar hér á landi og erlendis, og tók þátt í sautján samsýningum. Þá hefur hann efnt til sýninga í Þýskalandi, Danmörku, Mónakó, Bretlandi, Bandaríkjunum og Suður-Kóreu.

SSS
SSS