Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Mannlíf

Virðulegi faðir minn og góða bæjarstjórn!
Sólborg Guðbrandsdóttir í ræðustól á fundi með bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Það er enginn annar en faðir hennar, Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar sem situr við hlið hennar. VF-mynd/pket.
Fimmtudagur 19. nóvember 2015 kl. 09:18

Virðulegi faðir minn og góða bæjarstjórn!

Ræða Sólborgar Guðbrandsdóttur í Ungmennaráði Reykjanesbæjar á bæjarstjórnarfundi.

Ræða Sólborgar Guðbrandsdóttur í Ungmennaráði Reykjanesbæjar á bæjarstjórnarfundi.

Ég heiti Sólborg Guðbrandsdóttir og ég er önnur fulltrúanna frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Í ár er ég sú elsta i ungmennaráðinu, ég er nýorðin 19 ára gömul, en ég er mjög þakklát fyrir það að hafa fengið að vera með og fá að gera mitt besta í að sækjast eftir breytingum og umbótum á þeim málefnum sem skipta mig miklu. Eftir undirbúningsfundinn með ungmennaráðinu vorum við komin með ýmsar hugmyndir um það sem okkur langaði að tala um hérna í dag um hvað betur megi fara í þessu bæjarfélagi er snýr að okkur, en það eru tvö málefni sem mér persónulega fannst ég frekar þurfa að einblína á hér í dag en önnur.

Það fyrra er niðurgreidd sálfræðiþjónusta í skólana hér í Reykjanesbæ, bæði í alla grunnskólanna og í Fjölbraut. Ég hef til dæmis sjálf þurft að glíma við andleg veikindi síðastliðið hálfa árið og þar sem ég er námsmaður og hef lítinn frítíma til þess að afla mér það mikilla tekna til að standa undir þeim kostnaði sem sálfræðiþjónustunni fylgir, hefði sú aðstoð sem ég þurfti á að halda, kostað mig meira en ég hefði haft efni á.
Ég er nú það lánsöm að eiga foreldra sem gátu stutt mig fjárhagslega og borgað sálfræðiþjónustuna fyrir mig en því miður er staðreyndin sú að það eru ekki öll börn i Reykjanesbæ það lánsöm. Margir búa við mikla fátækt eins og þið vitið og það eitt og sér getur leitt til andlegrar vanlíðan. Þeirri vanlíðan væri að öllum líkindum hægt að fá aðstoð við, væri það möguleiki að kostnaðarlausu hér i Reykjanesbæ.

Þar sem ég er nú sjálf táningur, sem eyði miklum tíma á samfélagsmiðlum, svo sem Facebook og twitter, hef ég fylgst náið með þeim samfélagslegu ,,byltingum“ sem hafa átt sér stað á netinu síðastliðin misseri. Ein af þeim nefndist ,,ég er ekki tabu“ þar sem fólk talaði opinskátt um sín andlegu veikindi og þá sá maður hvað þetta er virkilega algengt. Það fólk sem maður taldi einhvern veginn ómögulegt að liði illa steig fram og sagði frá. Þetta er að gerast í kringum okkur öll og ábyggilega hjá okkur öllum líka. Okkur líður oft illa og við eigum ekkert að skammast okkar fyrir það. En það væri nú rosalegt gott að þurfa ekki að hika við að leita sér aðstoðar vegna þess gríðarlega kostnaðar sem fylgir sálfræðiþjónustunni og að vita til þess að bærinn manns stæði við bakið á manni og hjálpaði.

 Ef ég fæ höfuðverk í skólanum get ég leitað til hjúkrunarfræðings og fengið viðeigandi aðstoð og sama á við um önnur líkamleg veikindi. Mér finnst það því vera sjálfsagður hlutur að geta leitað sér aðstoðar til fagaðila á skólatíma vegna andlegra veikinda. Hver veit nema það komi í veg fyrir brottfall nemenda úr skóla, lélega mætingu og ýti þá frekar undir góða námsástundun og einkunnir. Ég legg því til að fagaðili verði ráðinn í hvern skóla í Reykjanesbæ, til að aðstoða þá nemendur sem þurfa á hjálp að halda hvað varðar andleg veikindi, þeim að kostnaðarlausu.

Seinna málefnið sem mig langar að tala um er hinsegin fræðsla ií grunnskólanna. Þegar sú umræða fór af stað hjá Ungum Jafnaðarmönnum fyrir nokkrum mánuðum síðan sá maður hvað það eru virkilega miklir fordómar á Íslandi í garð minnihlutahópa eins og hinsegin fólks og því þarf að breyta! Þegar ég fylgdist með umræðum fólks og athugasemdum varð ég þó fegin að sjá að unga fólkið virtist vera opnara fyrir þessu en eldri kynslóðirnar, sem segir okkur bara að viðhorf fólks til einstaklinga, sem kannski eru ekki 100% eins og maður sjálfur, er smám saman að breytast til hins betra.

Fordómarnir í samfélaginu minnka með hverju árinu sem betur fer. En til þess að það haldi áfram þurfum við að leggja okkar að mörkum. Tilgangurinn með hinsegin fræðslunni er einfaldlega sá að upplýsa nemendur um það hvað felst í því að vera hinsegin manneskja og hvernig við gerum samfélagið opið gagnvart hinsegin fólki og minnkum fordómana í garð þess. Fræðslan gerir ráð fyrir að allt starfsfólk grunnskólanna fái ítarlega fræðslu um hinsegin málefni, það er kynhneigð, kynvitund og málefni intersex fólks. Þá er einnig farið í það hvert krakkar eigi að leita vanti þeim aðstoð við að ,,koma út úr skápnum“. Og einmitt í þeim aðstæðum væri örugglega hrikalega fínt líka að geta leitað til sálfræðingsins í skólanum.
Greinargerð tillögunnar hljóðaði svona: Á unglingsárunum verða mikil umskipti í lífi einstaklinga. Unglingsárin geta reynst erfiður tími fyrir þá sem falla ekki inn í norm samfélagsins. Margir upplifa að þeir falli ekki inn í hópinn vegna kynhneigðar eða kynvitundar. Þessir einstaklingar eiga í meiri hættu en aðrir að einangrast félagslega og verða fyrir aðkasti. Hinsegin ungmenni upplifa oftar vanlíðan og eru líklegri til að reyna sjálfsvíg. Rannsókn framkvæmd í Noregi leiddi í ljós að hlutfall hinsegin ungmenna sem hafa reynt sjálfsvíg er þrisvar til fjórum sinnum hærra en hlutfall annarra ungmenna. Hinsegin ungmenni upplifa skort á upplýsingum, umræðu og fyrirmyndum og eiga í erfiðleikum með að þróa jákvæða sjálfsmynd. Ritgerðin sýnir einnig fram á að þrátt fyrir bætta réttarstöðu hér á landi meta hinsegin unglingar lífsánægju sína mun síðri en gagnkynhneigðir jafnaldrar þeirra. Fræðsla og upplýst umræða getur skipt sköpum í lífi hinsegin ungmenna. Fræðslan getur gert þeim auðveldara að takast á við þær tilfinningar sem tengjast kynhneigð sinni og kynvitund. Auk þess getur hinsegin fræðsla verið mikilvægur liður í að útrýma fordómum og uppræta hatursfulla orðræðu gegn hinsegin einstaklingum.

Þeir bæir sem þegar hafa samþykkt tillöguna eru: Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Garðabær, Reykjavík, Hveragerði og Árborg. Mér finnst því tilvalið að Reykjanesbær verði næsti bærinn í þessari upptalningu og að hinsegin fræðsla í grunnskólunum hefjist strax á næsta skólaári.