Pistlar

Fjörutíu ára Íslandsmeistarar
Föstudagur 15. nóvember 2024 kl. 06:05

Fjörutíu ára Íslandsmeistarar

Vá hvað tíminn líður óskaplega hratt. Ótrúlegt en satt – en það eru liðin 40 ár síðan við Keflavíkurstelpur gjörsamlega rústuðum annari deildinni í fótbolta. Taplausar urðum við meistarar – og eins og fyrirsögnin sagði – „Kvennaknattspyrna 2. deild – Keflavíkurstúlkur Íslandsmeistarar“.

Þetta var frábært sumar, frábær hópur og frábær stemmning hjá okkur. Í minningunni finnst mér við hafa æft á hverjum degi. Við unnum stóra sigra – ÍR til dæmis minnir mig að við höfum unnið 10:0. Fyrirsagnirnar sögðu að „Stúlkurnar voru óstöðvandi!“ Viðar heitinn Oddgeirsson var þjálfarinn okkar og hélt vel utan um hópinn. Hann passaði svo vel upp á okkur að eftir honum var haft í einhverju blaðaviðtali þegar líða tók á tímabilið (og við vorum að vinna keppinauta okkar nokkuð stórt)  að við værum bara frekar hressar. Hann sagði að í upphafi tímabilsins hefðum við æft svona tvisvar, þrisvar í viku, en svo hefði komið þreyta í hópinn og hann hefði ákveðið að einu sinni til tvisvar í viku væri bara fínt svo við gætum líka sinnt öðru því sem við höfðum meira gaman af því að fást við! Ég man ekki alveg hvað ég var svona annað upptekin við – en það voru kannski einhverjar útlandaferðir á vinarbæjarmót sem gætu hafa tekið einhvern tíma frá okkur. En það væri skemmtilegt rannsóknarefni að sjá hversu langt við hefðum náð ef við hefðum haldið okkur í tveimur, þremur æfingum á viku!

Eins og ég sagði í upphafi, þá er ótrúlega langur tími liðinn. Heil 40 ár. Margt hefur breyst og ekki síst metnaðurinn og krafturinn í kringum kvennaboltann. Við Íslendingar eigum stórstjörnur á heimsmælikvarða og við Keflvíkingar eigum til dæmis okkar stórstjörnu eins og Sveindísi Jane.

Og nú tala ég eins og mjög gömul kona (já, ekkert skrýtið ... ég var að verða sautján þarna þegar við unnum og síðan eru liðin 40 ár) en ég trúi og vona svo innilega að við stelpurnar þarna fyrir 40 árum höfum kannski með einhverjum hætti rutt brautina fyrir ykkur sem á eftir komu.

Ég veit bara það að fjörutíu árum síðar höldum við hópinn – Íslandsmeistararnir. Okkur þótti og þykir þetta frekar töff hjá okkur.

Ég missti því miður af lokaleiknum. Við vorum búnar að tryggja okkur sæti í fyrstu deild en áttum eftir einn leik við Fylki til að tryggja Íslandsmeistaratitilinn.Við unnum hann 3:2 ... en ég missti því miður af honum þar sem ég var farin til Ameríku sem skiptinemi. Og þá var myndin tekin. Íslandsmeistaramyndin ... sem ég var ekki á.

En núna – 40 árum seinna kunna menn ráð við því. Þær mættu til að fagna 40 árunum og auðvitað var tekin mynd. Og við þær sem ekki komust eru þarna með – með nútíma tækni – og við fögnum stórkostlega þessu fjörutíu ára afreki okkar.

Ég segi bara áfram Keflavík!