HS Orka
HS Orka

Pistlar

Karamellusala ríkisins
Föstudagur 1. nóvember 2024 kl. 06:28

Karamellusala ríkisins

Samkvæmt fréttum berjast nú fjögur alþjóðleg stórfyrirtæki um réttinn til þess að reka fríhafnarverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.

Í fréttum Stöðvar 2 voru formenn ríkisstjórnarflokkanna spurðir um málið.

Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, sagði að mikilvægt væri að íslenskir hagsmunir væru þar tryggðir að við séum ekki bara að sjá enn eina alþjóðlegu flughöfnina heldur sé augljóst að þú sért að lenda á Íslandi.

Forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, hafði þetta að segja: „Fyrir réttinn til að reka þessa verslun, til að selja þessar karamellur, ilmvötn og annan varning sem þarna er seldur, og ef að stjórn ISAVIA kemst að því að miklu meira sé uppúr þessu að hafa fyrir hagsmuni ríkisins að láta menn keppast um og borga fyrir þennan rétt, þá líst mér vel á það.“ Svo mörg voru þau orð.

Ég held að Suðurnesjamenn megi hafa af þessu máli miklar áhyggjur. Fjöldi starfsmanna á Suðurnesjum í Fríhöfninni er nokkuð sambærilegur þeim fjöda starfsmanna á Akranesi sem misstu vinnuna þegar 3X stál varð gjaldþrota. Á Akranesi er fjöldi fólks sem heldur því fram að frumhlaup utanríkisráðherra um lokun sendiráðs Íslands í Rússlandi hafi haft mikið með þrot þessa fyrirtækis að gera. Í pólitíkinni hefur það raungerst þannig að hún flúði kjördæmið og er nú í framboði í Kraganum fyrir komandi Alþingiskosningar.

Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna hafa sýnt það oft áður að þeir hafa engar áhyggjur af atvinnumálum á Suðurnesjum. Hvað eru margir Suðurnesjamenn sem sitja í stjórn ISAVIA og hafa eitthvað um þetta mál að segja? Er alveg víst að þegar öllu er á botninn hvolft að ríkið muni bera meira úr býtum með erlenda fagaðila í fríhafnarrekstri þegar allt er reiknað inn í dæmið? Ég held ekki.

Verkefni stjórnar ISAVIA er klárlega að hámarka afkomu ISAVIA og greiða svo arð til ríkisins. En um leið og starfsmönnum Fríhafnarinnar fækkar og launin lækka, þá fær kannski ISAVIA meira - en ríkið á endanum fær minna og klárlega fá sveitarfélögin á Suðurnesjum minna. Þetta er nefnilega sami  ríkiskassinn bara sitthvor vasinn.

Ég efast stórlega um að treysta stjórnmálamönnum sem skilja það ekki fyrir stjórnartaumum landsins.

Gleðilegan kosningamánuð.