Heklan
Heklan

Pistlar

Af útgerðarfélögum um land allt
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 31. janúar 2025 kl. 06:04

Af útgerðarfélögum um land allt

Nú líður að lokum janúar og þegar þetta er skrifað þá er allt að fyllast af snjó, alvöru vetur í gangi núna.

Veiðin það sem af er janúar er búin að vera nokkuð góð og veðurfarið hefur líka verið gott, engar alvöru brælur hafa komið, þó svo að framundan séu skrautleg veður.

Ef við lítum fyrst aðeins á togarana þá er Jóhanna Gísladóttir GK komin með 306 tonn í fimm löndunum og mest 85 tonn, Áskell ÞH með 249 tonn í fjórum löndunum, Sóley Sigurjóns GK með 219 tonn í þremur túrum, Vörður ÞH með 210 tonn í þremur og Pálína Þórunn GK með 122 tonn í tveimur túrum.

Nýjasti togari landsins, Hulda Björnsdóttir GK, er kominn með 295 tonn í þremur löndunum og mest 131 tonn í löndun. Hulda Björnsdóttir GK var í eigu Þorbjarnar ehf. en núna er búið að skipta fyrirtækinu upp í þrjá hluta, einn af þessum hlutum heitir ansi sérstöku nafni, eða Ganti ehf.

Mjög sérstakt nafn á fyrirtæki og þegar ég fór að leita af þessu nafni þá tengist það samkvæmt Íslensku orðabókinni, orðinu Galsi eða Galgopaskapur. Sem sé húmor eða fyndni. 

Ef fyrirtækið sem á Hulduna heitir þessu sérkennilega nafni, hvað heita þá hin fyrirtækin? 

Jú, fyrirtækið sem gerir út Hrafn Sveinbjarnarson GK heitir nú nokkuð fínu nafni, eða Blika Seafood ehf. Fyrirtækið sem gerir út Tómas Þorvaldsson GK heitir nokkuð flottu nafni, eða Útgerðarfélag Grindavíkur ehf. 

Þetta orð, útgerðarfélag, var nokkuð algengt hér á árum áður, það þekktasta og það fyrirtæki sem lengst var með þetta orð, var Útgerðarfélag Akureyrar. Síðan voru önnur fyrirtæki með þetta orð, til dæmis Útgerðarfélag Flateyrar, Útgerðarfélag Reykjavíkur og á Suðurnesjum hefur líka verið til Útgerðarfélag Keflavíkur og Útgerðarfélag Sandgerðis. En Útgerðarfélag Grindavíkur hefur að mér telst til ekki verið til áður. 

Af öðrum en trollbátunum þá má helst nefna að línubátarnir hafa veitt mjög vel og ef við skoðum dagróðrabátanna þá er Fjölnir GK (með danska Ö-inu) kominn með 168,5 tonn í sautján róðrum. Á þessum báti eru tvær áhafnir og tveir skipstjórar. Júlli sem lengi var með Daðey GK og Kiddó sem var árið 2024 með Daðey GK (nýja) en þá var Júlli með Fjölni GK. Óli á Stað GK er með 157 tonn,  líka í sautján róðrum, Margrét GK með 159 tonn í fimmtán róðrum og mest 15,7 tonn. Vésteinn GK með 116 tonn í níu róðrum, mest 20,4 tonn. Gísli Súrsson GK með 80 tonn í sjö og mest 16,7 tonn, hluta þess afla var landað á Stöðvarfirði. Hópsnes GK var með 88 tonn í tólf og mest 10 tonn. Geirfugl GK með 75 tonn í ellefu og mest 12,5 tonn. Dúddi Gísla GK var með 57 tonn í níu róðrum og mest 10,6 tonn.

Katrín GK er eini báturinn sem er fyrir norðan og er komin með 16 tonn í þremur róðrum og mest 6 tonn.