Veðurguðirnir hliðhollir sjómanninum á Suðurnesjum í upphafi árs
Það fór nú eitthvað lítið fyrir pistli í síðustu viku, ég var í rútuferð sem bílstjóri og átti langan dag og bara steingleymdi að henda orðum á blað en það kom ekki að sök þar sem ég hafði skrifað pistil strax í upphafi árs, og hann birtist í síðasta blaði, sem var fyrsta tölublað Víkur-frétta.
En jæja, vertíðin 2025 er hafin og hún byrjar mjög vel. Í það minnsta veðurfarslega séð því óvenjulega gott veður hefur verið það sem af er janúar og hafa bátar komist nokkuð duglega á sjóinn. Reyndar er veðrið búið að vera það gott að meira segja handfærabátarnir hafa komist á sjóinn, t.d Dímon GK sem kom með 329 kg í einni löndun, Guðrún GK sem er komin með 641 kíló í tveimur róðrum og Agla ÍS sem er með 866 kíló í þremur róðrum. Allir þessir þrír bátar voru að veiðum í Röstinni á milli Eldeyjar og Hafnarbergs. Þó þetta sé ekki mikill afli þá er mest af aflanum ufsi og verð á ufsa á fiskmarkaði hefur verið nokkuð gott, um 200 kr á kílóið miðað við óslægðan ufsa.
Ansi margir línubátar hafa verið að veiðum frá Sandgerði og er veiðin hjá þeim nokkuð góð. Fjölnir GK er með 79,1 tonn í níu róðrum og mest 12,1 tonn. Óli á Stað GK 78,3 tonn í níu og mest 14 tonn. Margrét GK 68,2 tonn í átta og mest 12,2 tonn. Hópsnes GK 48,5 tonn í sex og mest 9,7 tonn. Geirfugl GK 30,6 tonn í sex og mest 9,1 tonn. Dúddi Gísla GK með 23,9 tonn í fjórum og mest 7,9 tonn og Hulda GK 21,4 tonn í fjórum róðrum og mest 7 tonn.
Ekki eru margir bátar á netum, þó voru Kap VE og Erling KE á veiðum utan við Stafnes og inn í Faxaflóanum. Erling KE er kominn með 40.5 tonn í fimm róðrum og mest 12,5 tonn. Kap VE veiddi í sig en kom til Sandgerðis og lá þar á meðan netin voru úti. Báturinn fór síðan til Hafnarfjarðar og landaði þar 54 tonnum í einni löndun.
Reyndar er nokkuð merkilegt með Kap VE því báturinn lá í Sandgerði núna nokkra róðra og var þetta í annað skipti sem að báturinn kemur til Sandgerðis en Kristgeir skipstjóri á bátnum, kom í eitt skipti til Sandgerðis á vertíðinni 2024 en hefur ekki landað þar. Báturinn lá líka oft í fyrra í Keflavík en landaði aldrei þar, fór alltaf til Hafnarfjarðar eða sigldi til Vestmannaeyja og landaði þar.
Reyndar er þriðji stóri báturinn kominn af stað og það er Friðrik Sigurðsson ÁR. Þegar þetta er skrifað þá er báturinn við veiðar utan við Stafnes, tveir minni netabátar hafa hafið veiðar. Sunna Líf GK sem er komin með 1,8 tonn í tveimur róðrum og Addi Afi GK sem er með 3,2 tonn í 4, báðir hafa verið með netin sín við Garðskagavita.
Dragnótabátarnir eru líka komnir af stað en veiðin hjá þeim hefur verið frekar lítil, Benni Sæm GK er hæstur af þeim en þó aðeins með 13,7 tonna afla í 6 róðrum. Sigurfari GK 8,6 tonn í sex róðrum, Siggi Bjarna GK 6,2 tonn í þremur og Aðalbjörg RE 2,7 tonn í einni löndun.
Stóru línubátarnir frá Suðurnesjum eru aðeins tveir og í fyrsta róðri var Páll Jónsson GK með línuna sína utan við Grindavík og kom til Grindavíkur með 67,4 tonn eftir þrjá daga á veiðum og Sighvatur GK var með línuna utan við Sandgerði og kom til Grindavíkur með 95,7 tonn.
Hef áður skrifað um nafnið Sturlu en Sturla GK er nafn sem hefur verið á nokkrum togurum og einum línubáti sem að Þorbjörn hf í Grindavík hefur gert út en núna er Sturlu-nafnið horfið því að búið er að selja Sturlu GK til Grundarfjarðar og heitir togarinn núna Guðmundur SH. Nýi togarinn, Hulda Björnsdóttir GK, er tekinn við af Sturlu en þó ekki þannig að þeir mega veiða eins nálægt landi og Sturla GK mátti, því hún var 29 metra löng og mátti þar af leiðandi veiða upp að 3 sjómílum frá landi, Hulda Björnsdóttir GK þarf að vera 12 mílur frá landi út af lengd togarans.