Heklan
Heklan

Pistlar

Af hverju er ekkert „unlike“ á fésbókinni?
Föstudagur 31. janúar 2025 kl. 06:57

Af hverju er ekkert „unlike“ á fésbókinni?

Fésbókin hefur hingað til hentað mér ágætlega. Hún gefur manni tækifæri á að fylgjast með allskonar hjá fésbókarvinunum og líka tækifæri á að tjá sig um það sem helst er á baugi hverju sinni. Okkur eru gefnir möguleikar á að „læka“ eða gefa innhaldi þess sem við lesum allskonar einkunnir, hjörtu, umhyggju og jafnvel reiði ef því er að skipta eða  okkur líkar hreint ekki hvað vinir okkar skrifa. Málið dautt og allir sáttir, eða það hélt ég þar til nýlega.

„Pabbi viltu hætta að senda öllum þennan putta,“ sagði sonur minn nýlega þegar við vorum að ræða eitthvað sem sem sagt hafði verið á netinu. Þetta er svo miðaldra og getur þýtt allt annað en þú heldur. Ég hafði verið að læka og hélt að ég væri að hrósa.

Flest okkar sem notum farsíma eða tölvur könnumst við þessi litlu tákn sem kölluð eru emoji [tjákn] og komu fyrst til sögunnar í kringum 1990 í japönskum snjallsímum. Í fyrstu voru þetta tiltölulega fá tákn með skýra merkingu en hefur fjölgað á undanförnum árum og verða í kringum 3.000 árið 2025 ef svo fer fram sem horfir.

Það versta við þetta fyrir þau okkar sem miðaldra og eldri erum að tjáknin  eru byrjuð að skipta merkingu. Við getum ekki lengur verið viss um að þau þýði það sem við höldum.

Ég er búin að vera svolítið hugsi yfir þessum breytta veruleika. Reynt að hugsa mig vel um hvað tákn ég set við allskonar færslur á netinu, og í daglega lífinu. Þetta er sennilega partur af því að verða miðaldra eða eldri eins og ég er og ná ekki að fylgja allri þeirri tækni og gervigreind sem stöðugt ryður sér meira rúm í einföldum veruleika okkar.

Ég á þeim stað í lífinu gagnvart tækninni að ég ég er ennþá að rífast við saklausa sjálfsafgreiðslukassa í verslunum og ég er líka að rífast við sjálfvirka símsvara sem alltaf eru að segja mér það sama, að ég sé númer 99 í röðinni og spila svo einhverja hallærislyftumúsik á eftir í þeirri von að ég róist þar til þeir koma aftur og tilkynnað mér að ég sé nú númer 98 í röðinni.

Eitt er það þó sem ég skil ekki í sambandi við fébókina og þau tjákn sem þar er boðið upp á. Af hverju er ekkert „unlike“ þar svo maður geti bara sagt það sem maður er að meina?