Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Pistlar

Vigdís
Föstudagur 24. janúar 2025 kl. 06:36

Vigdís

Eins og meirihluti landsmanna höfum ég og fjölskyldan öll setið límd við skjáinn síðustu sunnudagskvöld og horft á þættina um Vigdísi Finnbogadóttur. Þættirnir eru frábærlega vel gerðir og ná að fanga söguna, manneskjuna, tíðarandann. Sagan er vissulega sannsöguleg, en höfundar taka sér ákveðið listrænt skáldaleyfi sem heppnast með afbrigðum vel og virðing höfunda fyrir Vigdísi skín í gegn alla leið.

Það er ótrúlega mikilvægt, ekki síst fyrir komandi kynslóðir, að saga Vigdísar sé rækilega skrásett og áhrifum hennar á Íslandssöguna – og heiminn allan – sé haldið hátt á lofti. Það var nefnilega alls ekki sjálfsagt að Vigdís yrði kosin forseti. Reyndar var það í raun talið frekar ólíklegt og þættirnir draga vel fram allar þær hindranir sem hún þurfti að yfirstíga, hindranir sem töldust ekki einu sinni hindranir á þeim tíma, heldur bara einfaldlega raunveruleikinn. Vigdís nefnilega átti stóran þátt í að breyta raunveruleikanum. Skriðan sem kvennafrídagurinn 24. október 1975 og  kjör Vigdísar árið 1980 settu af stað var mögnuð þegar litið er til jafnréttisbaráttunnar og sýndu bæði mátt samstöðunnar og mikilvægi fyrirmynda. Konur gátu orðið forsetar!

Ég hef notið þeirra forréttinda að fá að kynnast og umgangast Vigdísi í gegnum tíðina starfa minna vegna. Ég man vel hvenær ég hitti hana fyrst, í Washington DC haustið 1994 þar sem ég vann um tíma í Sendiráði Íslands að loknu háskólanámi við undirbúning margvíslegra viðburða til að halda upp á 50 ára afmæli lýðveldisins, þar sem forseti Íslands var að sjálfsögðu heiðursgesturinn.  Hún sýndi öllum sömu virðinguna og hafði einlægan áhuga á fólki. Ég var neðst í goggunarröðinni í sendiráðinu, en hún spurði mig spjörunum úr þar til að við komumst að því að móðursystir mín hafði verið með henni í MR. Ég gleymi því svo aldrei hversu mikið ég skammaðist mín þegar ég, aðspurð af Vigdísi, vissi ekki hvar afi minn Guðmundur hefði unnið. „Á einhverri skrifstofu“ svaraði ég, og hún benti mér fallega á það að forvitni um uppruna sinn og fólkið sitt væri mikilvægur eiginleiki til að rækta. Ég hef gert það síðan.

Ég hef hitt alskonar fólk og fyrirmenni í gegnum tíðina. Ég held að ég hafi samt aldrei hitt eins stóra manneskju eins og Vigdísi. Hún einfaldlega á sinn yfirvegaða, vingjarnlega, hlýja, þægilega og beinskeytta hátt ber af. Áhrif hennar eru mikil. Og enn sameinar hún þjóðina – nú fyrir framan sjónvarpið. Ég panta hér með framhaldseríu – af nógu er að taka.

Takk Vigdís!