Vertíðin að hefjast
Það er komið ansi langt fram í janúar núna og veiðin er byrjuð að aukast, sérstaklega hjá dragnótabátunum. Veiðin hjá þeim var mjög léleg fyrstu daganna í janúar en síðustu daga hefur hún aukist töluvert. Sigurfari GK er kominn með um 59 tonna afla í tíu róðrum og mest um 18 tonn í róðri. Benni Sæm GK er með 42 tonn í tíu róðrum, mest 14 tonn. Aðalbjörg RE um 20 tonn í fimm róðrum en Siggi Bjarna GK aðeins með 10 tonn í fimm róðrum.
Aðalbjörg RE og útgerð þess skips er elsta útgerðarfyrirtæki í Reykjavík en saga þess spannar 93 ár aftur í tímann. Eldri Aðalbjörg RE var lengi vel úti á Árbæjarsafni en hefur verið geymd inni í skemmu í Korngörðum í Reykjavík og ástandið á þeim báti er mjög slæmt. Núverandi Aðalbjörg RE er stálbátur sem var smíðaður á Seyðisfirði árið 1987 og er þetta sá bátur í dag sem á sér lengsta sögu dragnótabáta við veiðar í Faxaflóanum eða í Bugtinni. Aðalbjörg RE hefur að mestu verið gerð út frá Reykjavík en síðustu tæplega tíu ár eða svo hefur báturinn verið gerður mjög mikið út frá Sandgerði. Eftir þessa löngu útgerðarsögu var báturinn seldur til Fiskkaupa ehf. í Reykjavík en þeir gera út grálúðunetabátinn Kristrúnu RE og línubátinn Jón Ásbjörnsson RE. Þó svo að búið sé að selja Aðalbjörgu RE þá verður útgerð bátsins haldið áfram, enda er báturinn mjög góður því vel hefur verið hugsað um hann þau 38 ár sem að báturinn hefur verið í eigu útgerðar Aðalbjargar RE. Núna eru í áhöfn Aðalbjargar RE nokkrir þrælvanir dragnótamenn sem voru lengi á Njáli RE sem var líka mikið gerður út frá Sandgerði.
Veðráttan er búin að vera frekar erfið síðan síðasti pistill var skrifaður en veiðin hjá línubátunum er að aukast og má segja að mokveiðin sé byrjuð.
Ef við lítum á bátanna þá er Fjölnir GK kominn með 119,3 tonn í tólf róðrum og mest 17,3 tonn. Margrét GK rétt á eftir með 115,5 tonn í tólf og mest 13,3 tonn og Óli á Stað GK þar líka ekki langt frá með 113,6 tonn í þrettán róðrum og mest 14 tonn, allir að landa í Sandgerði.
Vésteinn GK er með 30 tonn í þremur róðrum en hann kom fyrst til Grindavíkur og landaði þar 8,2 tonnum, restin er í Sandgerði. Vésteinn GK er eigu Einhamars ehf í Grindavík og annar bátur frá Einhamri er líka kominn suður og er það Gísli Súrsson GK, hefur hann landað 26 tonnum í tveimur róðrum í Grindavík.
Hópsnes GK er með 66 tonn í 9 róðrum og mest 9,6 tonn. Geirfugl GK 48 tonn í sjö og mest 13 tonn, Hulda GK með 30 tonn í sex og mest 8.7 tonn, allir í Sandgerði.
Það eru ennþá tveir bátar úti á landi, Katrín GK er á Skagaströnd og hefur landað þar 10 tonnum í tveimur róðrum og Auður Vésteins SU er á Stöðvarfirði og hefur landað þar 86 tonnum í sex róðrum.
Enginn almennilegur kraftur er kominn í veiðar hjá netabátunum en tveir stórir netabátar eru á veiðum, Erling KE sem er kominn með 53 tonn í átta róðrum og Friðrik Sigurðsson ÁR sem er kominn með um 8 tonn í fimm róðrum. Báðir bátarnir hafa verið með netin sín út frá Stafnesi en athygli vekur að á meðan að Erling KE siglir í um 40 mín til Sandgerðis, siglir Friðrik Sigurðsson ÁR í um tvo og hálfan tíma fyrir Garðskaga og til Njarðvíkur þar sem hann landar. Báturinn er að veiða fyrir Hólmgrím og hann lætur bátanna alltaf landa í Njarðvík.