Þarfasti þjónninn
Ríðum, ríðum rekum yfir sandinn, segir í gömlu þjóðkvæði eftir Grím Thomsen. Kvæðið lýsir nöturlegum veruleika hálendisins og þrá hestamanna til að komast í burtu og niður í Kiðagil í Bárðardal, burtu frá huldumönnum og allskonar kynjaverum sem á hálendinu eru. En nú eru breytingar yfirvofandi. Hestamenn geta ekki lengur hleypt hestum sínum á skeið á hálendi Íslands, nú er það bara töltið og fylgjast vel með hvað hesturinn lætur frá sér, og taka það með til byggða. Hrossaskítur er orðinn að stórhættulegum úrgangi sem ber að skila á næstu endurvinnslustöð.
Frétt í byrjun þessa árs um raunir hestamanna og skilaskyldu á hrossataði vakti óneitanlega athygli mína og á hvaða vegferð við virðumst vera komin í þegar kemur að losun úrgangs. Mér varð hugsað til þeirra ganamanna sem Grímur samdi um seinnipart 19.aldar og dagsins í dag. Hvernig erfiðleikarnir geta margfaldast þegar allskonar blýantsnagarar og Exelaðdáendur geta búið til ný vandamál þegar að alls er þörf á.
Ég sá fyrir mér gagnamenn í Ódáðahrauni ganga um með skjólur sem fötur hétu þá, ganga um í votum sauðskinsskóm í kulda og trekki, sort-era kindaskít frá hrossaskít, til að koma hrossaskítnum örugglega á næstu endurvinnslustöð.
Sennilega hefðu þeir allir orðið úti miðað við umfang verksins og veðurfars á hálendinu.
Auðvitað er þetta mjög ýktur samanburður. Tímarnir eru aðrir nú, en hrossaskíturinn sá sami. Hann hefur ákveðið áburðargildi og eykur vökst.
Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins skilgreinir hann sem áburð.
Fari svo fram sem horfir verður líf okkar stöðugt flóknara, því einarðir „sérfræðingar“ finna stöðugt upp á nýjum hugarórum til að flækja það sem ekki er flókið. Ég skil vel pirring hestamanna yfir þeim nýju álögum sem á þá eru lagðar með því að þurfa að greiða tuttugu og sex krónur fyrir hvert kíló, og skal það tað vera án aðskotahluta.
Það er gott að hafa reglur um ýmislegt það sem fram fer í nútímasamfélagi, og jafnvel gjöld þar sem það á við en stundum er skotið hressilega yfir markið og í þessu tilfelli um þarfasta þjóninn er það svo sannarlega gert.
Þá getur verið gagnlegt að láta hugann reika til Skúla og Sörla, í mögnuðu kvæði Gríms um Skúlaskeiðið. Það hefði líklega fæstum dottið í hug að verðmeta það sem frá gæðingnum frækna kom þar sem hann féll dauður niður í Húsafellstúni, eigenda sínum til lífs. Þjóninn þarfasti á betra skilið:
Sörli er heygður Húsafells í túni,
hneggjar þar við stall með öllum tygjum,
krafsar hrauna salla blakkurinn brúni,
bíður eftir vegum fjalla nýjum.