Tekur Birtingur NK við af Jóhönnu Gísladóttur GK?
Októbermánuður svo til að verða búinn og held að sjómenn geti verið nokkuð sáttir við mánuðinn. Í það minnsta sjómenn á línubátunum því veiðin hjá þeim er búin að vera mjög góð. Flest allir línubátarnir hafa verið á veiðum fyrir norðan og flestir að landa á Skagaströnd.
Hér fyrir sunnan hafa þrír bátar verið á línuveiðum, Dúddi Gísla GK sem er með 58 tonn í sjö róðrum, landað í Grindavík. Síðan Margrét GK með 86 tonn í sextán og Særif SH með 125 tonn í níu, báðir að landa í Sandgerði.
Stakkavík er búið að vera með mjög marga báta á Skagaströnd en mest öllum aflanum er ekið til Sandgerðis en fyrirtækið er með aðstöðu núna í húsnæði Nýfisks í Sandgerði. Stakkavík er núna með fimm báta á Skagaströnd, Katrínu GK sem er með 14,4 tonn í þremur, Geirfugl GK sem er með 34 tonn í sjö, Gulltopp GK sem er með 36 tonn í átta, Hópsnes GK sem er með 68 tonn í tólf og síðan Óli á Stað GK sem er búinn að ganga virkilega vel núna í október. Báturinn er kominn með þegar þetta er skrifað, 196 tonn í 21 róðrum og er ekki langt frá því að ná yfir 200 tonn.
Þess má geta að Óli á Stað GK hefur aldrei veitt yfir 200 tonn á einum mánuði svo þetta er ansi merkilegur árangur. Reyndar eru komnir tveir skipstjórar á bátinn, Óðinn Arnberg hefur verið skipstjóri á bátnum undanfarin ár og núna er Axel Þór Bergmann kominn á móti honum.
Samtals er þetta því um 350 tonn hjá Stakkavík núna í október.
Hjá Einhamri sem á þrjá báta hafa bátarnir veitt um 314 tonn, Gísli Súrsson GK er með 104 tonn í tólf róðrum, Vésteinn GK með 121 tonn líka í tólf túrum og Auður Vésteins SU er með 197 tonn í 21 róðrum. Allir þessir bátar eru á veiðum fyrir austan og landa að mestu á Stöðvarfirði.
Veiði togaranna er búin að vera nokkuð góð. Sóley Sigurjóns GK er komin með 565 tonn í fjórum löndunum og mest 147 tonn, allt landað á Siglufirði. Jóhanna Gísladóttir GK með 421 tonn í fimm, Áskell ÞH með 387 tonn í fimm, Vörður ÞH með 378 tonn í fimm, Sturla GK með 349 tonn í sjö og Pálína Þórunn GK með 189 tonn í fjórum túrum.
Reyndar getur farið svo að Jóhanna Gísladóttir GK verði seld því að Síldarvinnslan sem á núna stóran hlut í Vísi hf. sem gerir út Jóhönnu Gísladóttir GK, hefur keypt togarann Þóri SF frá Hornafirði og sá togari heitir núna Birtingur NK. Hefur Birtingur NK hafið veiðar og kom með 101 tonn í sinni fyrstu veiðiferð.
Ef við berum þessa togara saman þá var Jóhanna Gísladóttir GK smíðuð árið 1998 í Danmörku, Birtingur NK var smíðaður í Kína árið 2009. Jóhanna er 35,38 metra langur, Birtingur NK er 38.87 metra langur. Jóhanna er 10,5 metra breiður, og Birtingur NK 9,2 metra breiður.
Töluvert stærri lest er í Birtingi NK en togarinn hét Þórir SF og komst upp í það að koma með um 125 tonn í land í einni löndun, en Jóhanna Gísladóttir GK hefur náð í kringum 100 tonn mest í einni löndun.
Kannski er litamunurinn mest áberandi á þessum tveimur skipum því Jóhanna Gísladóttir GK er fallega græn en Birtingur NK er blár, hann er í þeim lit eftir að Skinney-Þinganes ehf. á Hornafirði átti hann, blái liturinn er liturinn á skipunum þeirra. .
Reyndar er liturinn hjá Síldarvinnslunni dökkblár og verður fróðlegt að sjá hvaða lit Birtingur NK sem kannski kemur í staðinn fyrir Jóhönnu Gísladóttir GK, muni fá.