Pistlar

Þetta „venjulega“ ...
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 6. febrúar 2022 kl. 06:36

Þetta „venjulega“ ...

Fyrir nokkrum árum síðan tók ég mynd af briminu hér úti fyrir Grindavík. Það var búið að vera suðvestan skítviðri og ölduduflið hér úti fyrir sagði ölduhæðina vera átta metra.

Fyrir mér og flestum þeim sem hér búa er þessi sýn og myndir sem þessi sem ég tók bara ósköp venjulegar. En, aftur að myndinni sem ég tók, töluvert seinna póstaði ég henni að gamni inn á fjölmenna erlenda ljósmyndasíðu á Face­book.

Ekki stóð á viðbrögðum fólks sem átti vart orð til að lýsa hrifningu sinni á henni og þó ekki síst því sem fyrir bar á henni. Þetta var svo hrikaleg, rosaleg, falleg og frábær mynd sagði fólk, brimið maður minn. Hvað þá að það væri bátur á siglingu í svona aðstæðum.

Þessi mynd sem mér fannst nú bara eiginlega ekkert sérstök þannig, grá og muskuleg og bara svona venjuleg, bara allt við hana og það sem á henni var, var venjulegt.

Svo rann það upp fyrir mér eftir þessi svakalegu viðbrögð fólks við myndinni að mitt venjulega og hversdagslega er bara svo fjarri því að vera eitthvað venjulegt fyrir öðrum.

Þegar að maður upplifir svona breytist nálgun og hugsun manns á hlutina.

Mitt venjulega er ekkert venjulegt ...