Mokveiði! Það er mikill fiskur þarna fyrir utan
Það er nú ekki oft sem það gerist að það sé bræla allan tímann sem líður á milli pistla – en brælan sem hófst 29. janúar stóð mjög lengi og slotaði ekki fyrr en 8. febrúar. Þá komust bátarnir loks á sjó og varð heldur betur mokveiði. Reyndar var þessi dagur 8. febrúar skammgóður vermir, því veður hefur ekki verið beint upp á það besta síðan þá.
Byrjum á netabátunum sem fóru út þann 8. febrúar. Erling KE kom með 16,2 tonn í land til Keflavíkur eftir eina löndun en hann og Friðrik Sigurðsson ÁR voru báðir með netin nokkrar sjómílur út frá Akranesi. Dragnótabátarnir fóru einnig út þann áttunda og hæstur af þeim var Maggý VE sem var með 18,2 tonn í einni löndun.
Það voru hins vegar línubátarnir sem heldur betur mokveiddu – og tveir af þeim lögðu tvær lagnir. Óli á Stað GK fór út með fimmtán þúsund króka og kom í land með um 14 tonna afla. Þeir lögðu línuna strax aftur og fóru út eftir löndun og komu í land um nóttina, var landað úr bátnum 9. febrúar og þá var báturinn aftur með um 14 tonna afla á jafn marga króka. Þetta reiknast út sem um 390 kíló á bala.
Margrét GK gerði það sama, fór út, lagði línuna, dró og lagði svo línuna strax aftur. Fór til Sandgerðis og landaði og út aftur. Var báturinn með 14.250 króka, sem báturinn dró tvisvar og kom samtals með í land um 31 tonn. Þetta er um 456 kíló á bala.
Það var aftur á móti Fjölnir GK sem heldur betur mokveiddi og hann fór tvisvar út – en ekki til að leggja og draga aftur, heldur kom báturinn í land eftir að hafa dregið aðeins helming af línunni og var þá kominn með 14,3 tonn. Þetta reiknast sem um 21 bali og það er 681 kíló á bala.
Báturinn fór út aftur til þess að draga restina af línunni og aftur kom hann í land með 14,2 tonn á jafn marga króka. Samtals var því dagurinn hjá Fjölni GK um 28,5 tonn á aðeins 17.400 króka, þetta er um 695 kíló á bala.
Yfir svona háar tölur á bala er bara til eitt orð. Mokveiði! Já, heldur betur.
Margrét GK og Óli á Stað GK voru báðir með línurnar sína svo til utan við Hafnir en Fjölnir GK var aðeins sunnar, því hann var út við Hafnaberg.
Ég var á bryggjunni í Sandgerði þegar Fjölnir GK og Margrét GK voru að landa úr fyrri róðrum sínum og þorskurinn var ansi stór og mikill sem bátarnir voru með.
Það á eftir að vera meira um svona mokveiði, því það er mikill fiskur þarna fyrir utan.