Pistlar

Sjö, níu, þrettán!
Föstudagur 7. febrúar 2025 kl. 06:12

Sjö, níu, þrettán!

Nei, nú held ég að þjálfarinn sé genginn af göflunum. Hvað gengur manninum til að taka slíka áhættu í svo mikilvægum leik! Ég píri augun til þess að sjá betur á skjáinn. Nei! Ég er handviss um að skyrtan hans sé ekki í þeim lit sem hún ætti að vera. Fer yfir litastillingarnar á imbanum. Jú jú, allt í góðu þar. Ég get svo svarið fyrir það (á innsoginu)… skyrtan er gul… eða kremuð… kannski hvít. En græn er hún ekki! Leikurinn sem um ræðir endaði reyndar með sigri Njarðvíkinganna, en litlu mátti muna! Hvar er græna skyrtan?! Er hún týnd? Er hún horfin? Eða kannski ónýt?

Það er svo skemmtilegt hvað við erum fordæmalaust hjátrúarfull þjóð, svona upp til hópa. Hvort sem það eru svartir kettir, brotnir speglar eða sjö, níu, þrettán með þreföldu banki í viðarplötu. Ekki má heldur gleyma okkar þjóðþekktu föstudögum til fjár og laugardögum til lukku. Allar regnhlífarnar kirfilega samanbrotnar innanhúss og öllum gestum fylgt til dyra svo að vitið haldist í húsinu. Og talandi um hús, þá skal að sjálfsögðu hafa saltið, brauðið og biblíuna meðferðis þegar flutt er í nýtt hús. Restinni af saltinu má svo kasta yfir öxlina við matseld til að tryggja hamingju og heilbrigði.

Í janúarmánuði fylgdist þjóðin með strákunum okkar á Heimsmeistaramótinu í handbolta. Þá fyrst fer okkur að kitla í hjátrúar-taugarnar. Sigga frænka kom í heimsókn þegar Ísland sigraði Slóveníu. Hún varð því að gjöra svo vel og mæta aftur í næsta leik á eftir, sem hún og gerði, og viti menn, Ísland vann líka leikinn gegn Egyptalandi. Í leiknum á móti Króötunum mætti hún hins vegar ekki, sem skýrir væntanlega gengi liðsins þann daginn. Takk Sigga.

Hjá nágranna mínum voru álíka skrípalæti uppi á teningnum. Heimilisfaðirinn í glænýjum Íslands-sokkum og tengdafaðir hans horfði á handboltann með öðru auganu. Vonarstjörnur Íslands svoleiðis rúlluðu leikjunum upp. Á þeim bænum mátti því heldur ekki breyta neinu, svona til öryggis. Úr varð að tengdapabbinn sá ekki nema hálft mótið og sokkarnir góðu dönsuðu eftir gólfinu við hvert mark. Þeir fóru reyndar beinustu leið í ruslið þegar ljóst var í hvaða stefndi en það er önnur saga.

Einhverjir eflaust prísa sig sæla að vera lausir við slíkan hégóma. Voru kannski með hugann við það að fyrir heilum 17 árum síðan fylgdumst við með grásprengdum þjálfara liðsins etja kappi á sömu stórmótum, vonarstjörnunni hérna í gamla daga. Átta sig svo á því hvað tíminn er allt of fljótur að líða. Þá læðast ónotatilfinningarnar aftur að þeim og þeir þora ekki öðru en að fylgja óskrifuðum reglum hindurvitna. 7 – 9 – 13. Bank, bank, bank.