Pistlar

Skipaskrárnúmerið 617 í 50 ár í Sandgerði
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 7. febrúar 2025 kl. 06:25

Skipaskrárnúmerið 617 í 50 ár í Sandgerði

Miklir eru öfgarnir í veðurfarinu. Janúar var feikilega góður mánuður og í raun mætti segja að mánuðurinn hafi verið óvenjulega góður því það voru fáir bræludagar og meira segja nokkrir handfærabátar náðu að fara á sjóinn í janúar. Samt sem áður, eins góður og janúar var þá tóku veðurguðirnir við sér og byrjuðu með brælukafla 30.janúar og þessi kafli stendur ennþá yfir þegar þessi pistill er skrifaður.

Þannig að fyrsta vikan í febrúar byrjar ekki beint glæsilega. Veiðin hjá bátunum var mjög góð og við hendum okkur beint í línubátanna, förum svo í dagróðrabátanna en þeir áttu mjög góðan mánuð. 

Hæstur af bátunum sem lönduðu á Suðurnesjunum var Óli á Stað GK sem var með 211 tonn í 22 róðrum og mest 14 tonn. Fjölnir GK náði líka yfir 200 tonna afla og var með 202 tonn í tuttugu róðrum, mest 17,7 tonn. Hjá þessum tveimur bátum var Óli á Stað GK með 74 tonn landað í Grindavík í sjö róðrum, restin var í Sandgerði og þar var stærsta löndun bátsins. Hjá Fjölni GK var 100 tonnum landað í Grindavík í tíu róðrum, 10 tonnum í Keflavík og restinni í Sandgerði, um 92 tonn og í Sandgerði var stærsta löndun bátsins, 17,7 tonn. Margrét GK var með 187 tonn í nítján róðrum og mest 13,5 tonn. Nokkuð langt var í næstu báta. Hópsnes GK var með 139 tonn í átján, Gísli Súrsson GK með 131 tonn í ellefu en hann byrjaði á Stöðvarfirði, kom síðan til Grindavíkur og kom svo með 15,8 tonna löndun til Sandgerðis. Vésteinn GK með 116 tonn í níu róðrum, hann hætti að róa 21. janúar en hann fór reyndar í róður frá Keflavík núna í byrjun febrúar og var þá með línuna skammt utan við Leiruna. Aflinn var tregur, rétt um 2,5 tonn. 

Geirfugl GK með 94 tonn í fjórtán, Dúddi Gísla GK með 79 tonn í ellefu, Hulda GK með 76 tonn í þrettán og Kristján HF 88 tonn í níu, allir þessir bátar lönduðu í Sandgerði, nema að Kristján HF var með 37 tonn í þremur róðrum í Sandgerði og restin var í Grindavík. 

Afli netabátanna var frekar tregur. Erling KE var með 84 tonn í fimmtán róðrum og mest 12,9 tonn og Friðrik Sigurðsson ÁR var með 76 tonn í átján róðrum og mest um 10 tonn í einni löndun. 

Hjá dragnótabátunum var veiðin í byrjun janúar mjög léleg en síðustu dagana í janúar áður en brælan hófst þá var mjög góð veiði. Sigurfari GK endaði með 134 tonn í fimmtán róðrum og mest 25,2 tonn. Og það má geta þess að þessi löndun Sigurfara GK, 25,2 tonn, var stærsta einstaka löndun dragnótabáta á Íslandi í janúar. 

Benni Sæm GK með 103 tonn í fimmtán róðrum, Siggi Bjarna GK með 69 tonn í tíu, Aðalbjörg RE með 66 tonn í tíu og má geta þess að stærsta löndun Aðalbjargar RE var rúm 20 tonn. 

Núna í byrjun febrúar þá fóru þrír dragnótabátar frá Sandgerði til veiða en aflinn var frekar tregur enda veður ekki gott. Aðalbjörg RE var með um 4,5 tonn, Sigurfari GK 3,7 tonn og Maggý VE 2,8 tonn.

Það má geta þess að Maggý VE var í fyrsta róðri sínum á þessu ári en hún landaði síðast í október árið 2024. Þessi bátur, Maggý VE, þó hann sé skráður í Vestmannaeyjum þá á hann sér langa sögu í Sandgerði því báturinn var keyptur til Reykjavíkur árið 2001 og fékk þá nafnið Hafnarberg RE. Báturinn var með  því nafni fram til ársins 2005 þegar Einar Magnússon kaupir bátinn og fékk báturinn þá nafnið Ósk KE 5. Báturinn var með því nafni til 2001 þegar að hann var seldur til Vestmannaeyja.

Ansi skemmtileg tenging við þessi tvö nöfn, Ósk KE og Hafnarberg RE því hátt í fimmtán ár eða svo voru þessi tvö nöfn á bátum sem réru frá Sandgerði og þessir tveir bátar voru oft og iðulega með svipaðan afla og oft var keppni á milli áhafna hvor yrði aflahærri. Þá var eikarbáturinn með sknr (skipaskrárnúmer) 617, Hafnarberg RE og Ósk KE var þá báturinn sem er Maron GK í dag. 

Og ef farið er lengra í sögu þessara báta þá átti 363 sér langa sögu áður en hann fékk Ósk KE nafnið og bar mörg nöfn þar á undan, 617 aftur á móti átti sér aðeins eitt nafn, það var Jón Gunnlaugs sem að Miðnes HF átti og var því útgerðarsaga 617 bátsins í Sandgerði hátt í 50 ár.