Optical Studio
Optical Studio

Pistlar

„Þetta er þér að kenna!“
Föstudagur 5. júlí 2024 kl. 08:03

„Þetta er þér að kenna!“

Í síðustu viku birtust fréttir af innritun nýnema í framhaldsskóla landsins. Ég var ánægð með að sjá að í ár var það Tækniskólinn sem var með flestar nýskráningar (og svo var ég auðvitað líka ánægð með að minn gamli skóli, Kvennaskólinn í Reykjavík, var með þær næstflestar). Áhugi nemenda á iðn- og tækninámi er gleðilegur fyrir margra hluta sakir. Mikil vinna hefur verið lögð í það um margra ára skeið að efla tækninám og ekki síst að auka áhuga og virðingu fyrir námi í þeim greinum.

Sem fyrrverandi iðnaðarráðherra fagna ég þessu mjög. Mér er mjög minnisstætt þegar ég heimsótti iðn- og tækniskóla á sínum tíma og ræddi við skólayfirvöld um það hvernig hægt væri að auka þennan áhuga og laða fleiri nemendur inn í þessar gríðarlega þjóðhagslega mikilvægu greinar. Við sem þjóð þurfum á iðn- og tæknimenntuðu fólki að halda en á þeim tíma vorum við að glíma við annars vegar lítinn áhuga á tækninámi og hins vegar (sem eigum reyndar enn við að glíma) við mikið brottfall, aðallega drengja, úr hefðbundnu bóknámi í framhaldsskólum.

Optical Studio
Optical Studio

Svar eins skólameistarans við þeirri spurningu hverju væri um að kenna er mér mjög minnisstætt. Hann sagði hreint út að þetta væri mér að kenna! Mér brá við og svaraði því til að ég væri jú þarna komin sem iðnaðarráðherra til þess einmitt að reyna að finna leiðir til að taka höndum saman með menntamálayfirvöldum að bæta þarna úr. En hann stoppaði mig af og sagði hann að hann væri alls ekki að benda á mig sem ráðherra, heldur sem móður! Því það væri ekki síst okkur foreldrunum að kenna að ungmennunum okkar væri stýrt inn í bóknámið, hvort sem þeim sjálfum hugnaðist það eða ekki. Áherslan á stúdentsprófið væri slík, við foreldrar hvöttum börnin okkar til að klára það fyrst og fara svo í hvað annað sem þau vildu. Þetta væri röng nálgun að hans mati því bóknám væri ekki upphaf og endir alls og hentar ekki öllum. Með þessu „háttalagi“, eins og hann kallaði það, værum við líka að draga úr verðmætasköpun í þjóðfélaginu og það sem verst væri að letja krakkana okkar að til að læra það sem þau hefðu raunverulega áhuga á.

Ég er svo sammála þessum ágæta skólameistara og vona sannarlega að þetta litla en, í mínum huga, stórmerkilega dæmi um áhuga nýnema á Tækniskólanum sýni okkur að þarna sé að verða breyting á. Ég hef reynt að hafa þetta í huga hvað mína drengi varðar, hvet þá að sjálfsögðu til þess að stunda nám og leggja sig alla fram. En við verðum að sleppa takinu og leyfa börnunum okkar að elta sína drauma og velja sína framtíð. Það fer líka ljómandi vel saman við árangur – áhugi á viðfangsefninu er farsælasta leiðin að árangri.